Eitt af stærstu yngri flokka mótum landsins, Hópbílamótið, fer fram um helgina í Grafarvogi þar sem félög alls staðar af landinu senda lið til keppni. Karfan.is tók púlsinn á Bárði Eyþórssyni sem tekur þátt í skipulagningu mótsins og sagði hann skráningu hafa gengið vel.
,,Það má segja að lið komi alls staðar að, því lið eins og Höttur, Sindri, Hörður og KFÍ koma með fína hópa. Og má segja að þessi lið loki hringnum í kringum landið,“ sagði Bárður en það verður ekki einvörðungu körfubolti sem verður á boðstólunum í Grafarvogi þessa helgina.
,,Einnig verður boðið í bíó og sund. Svo má ekki gleyma kvöldvökunni sem verður á laugardagskvöldið. Við tökum strax á móti liðum á föstudaginn, því lið sem koma lengra að gista hjá okkur í tvær nætur. Við hjá Fjölni hlökkum mikið til að fá alla krakkana og alla þá sem fylgja liðinum og ætlum að reyna að gera skemmtunina fyrir alla eins skemmtilega og hægt er,“ sagði Báður og ljóst að það verður margt um manninn í Grafarvogi um helgina.