spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2021Hlynur: Ákvað að hafa ekki áhyggjur af því sem að öðrum fyndist

Hlynur: Ákvað að hafa ekki áhyggjur af því sem að öðrum fyndist

Íslenski landsliðshópurinn er klár fyrir forkeppni EM og eins og greint var frá fyrir nokkrum dögum hefur Hlynur Bæringsson ákveðið að taka skónna aftur fram með landsliðinu. Hann á að baki 125 landsleiki og er því reynslumesti leikmaður liðsins. Hlyni leist ágætlega á hópinn fyrir æfingu landsliðsins í Hertz-Hellinum í gær.

“Það er líklegt að Capela verði með Sviss, sem gerir þetta náttúrulega dálítið erfitt,” segir Hlynur og vísar þar í að Clint Capela, byrjunarliðsmiðherji Houston Rockets í NBA, ætli sér að vera með svissneska landsliðinu í leikjum þess nú í ágúst. Hlynur ætti svo sem ekki að hafa of miklar áhyggjur af því enda hefur hann áður tekist á við stærri nöfn en Capela úr NBA og þar nægir að nefna t.d. Dirk Nowitzki og Pao Gasol. “Við erum bara nokkuð brattir, höfum unnið bæði þessi lið áður. Ég held að flestir leikir í þessari grúppu gætu fallið á báða vegu,” segir Hlynur en gengst jafnframt við því að það sé vissulega skellur að Haukur Helgi Pálsson og fleiri séu ekki með að þessu sinni. 

Hlynur ætlaði sér ekkert að vera með landsliðinu í sumar og var eins og áður sagði búinn að leggja skónna á hilluna með íslenska landsliðinu. Hann segir hins vegar að aðstoðarþjálfarar landsliðsins, Finnur Freyr Stefánsson og Baldur Þór Ragnarsson, hafi haft samband við sig eftir að menn á borð við Kristófer Acox og Sigurð Gunnar Þorsteinsson höfðu helst úr lestinni skömmu áður en að æfingar hófust.

“Svo heyrði Haukur Helgi í mér áður en hann hætti sjálfur við, helvítis kvikindið,” segir Hlynur kíminn, enda hafði Haukur Helgi lítið um það segja að geta ekki verið með liðinu. Rússneskt liðið hans, BC Unics, hefur ákvæði í samningi hans sem gerir það að verkum að þrátt fyrir góða heilsu getur Haukur Helgi ekki gefið kost á sér að þessu sinni.

“Mér hefur ekkert fundist íþróttamenn mjög töff sem að hætta og koma aftur.”

Ákvörðunin um að snúa til baka í landsliðið var mjög erfið, að sögn Hlyns. “Mér hefur ekkert fundist íþróttamenn mjög töff sem að hætta og koma aftur í gegnum tíðina og það gæti alveg litið eitthvað illa út en ég ákvað að láta mig bara hafa það og hafa ekki áhyggjur af því sem að öðrum fyndist,” segir hann. “Svo fann ég það bara að mig langaði til að vera með og að láta bara vaða. Það eru hvort eð er allir búnir að gleyma þessu,” segi Hlynur og vísar þar í seinasta landsleik sinn í Laugardalshöllinni fyrr á árinu þar sem hann og Jón Arnór Stefánsson voru leystir út með blómvöndum og uppklappi frá áhorfendum.

Hlynur er reynsluboltinn í liðinu eins og oft áður en líst vel á framtíð íslenska landsliðsins. “Næsta kynslóð getur komist nokkuð langt. Martin og Haukur eru komnir mjög langt í evrópska boltanum og Tryggvi náttúrulega flottur. Jón Axel líka,” segir hann í upptalningu sinni á nokkrum liðsfélögum sínum sem eru allir að standa sig með prýði með liðum sínum erlendis. “Næstu ár gætu orðið mjög spennandi.”

Íslenska landsliðið mun sækja portúgalska landsliðið heim þann 7. ágúst og svo keppa sitt hvorn leikinn við Sviss og Portúgal í Laugardalshöllinni 10. og 17. ágúst. Landsliðið mun síðan halda út til Sviss og freista þess að stela útisigri þann 21. ágúst.

Fréttir
- Auglýsing -