spot_img
HomeFréttir"Hlakka til að þjálfa Lárus" segir Jesper Krone

“Hlakka til að þjálfa Lárus” segir Jesper Krone

7:00

{mosimage}

Leikstjórnandinn Lárus Jónsson sem leikið hefur lengst af með Hamri hefur samið við danska úrvalsdeildarfélagið SISU í Kaupamannahöfn. Þar með fetar Lárus í spor Þorsteins Hallgrímssonar og Jóns Kr. Gíslasonar sem báðir léku með SISU.

Lárus flutti til Danmerkur nú í sumar vegna náms konu sinnar og komst í samband við SISU menn og var skrifað undir samning í vikunni.

Karfan.is heyrði í Lárusi og spurði hverjar væntingarnar væru fyrir veturinn.
„Væntingar til liðsins eru töluverðar miðað við í hvaða sæti liðið var í fyrra. Krone [Jesper Krone þjálfari SISU] sagði að stjórnin setti stefnuna á undanúrslit en hann sagði að raunhæft markmið væri að komast í úrslitakeppni og sjá svo hvar við stöndum.”

Hvert reiknar þú með að verði hlutverk þitt í liðinu?
„Mitt hlutverk í liðinu verður að leiða liðið þar sem flestir leikmenn SISU eru ungir að árum. Jes Hansen sem er Íslendingum kunnugur er að taka fram skóna að nýju og verður elsti leikmaður liðsins (32ára) svo kem ég þrítugur og einn leikmaður er 27 ára en aðrir eru í kringum 20 árin.

Liðið virðist vera vel mannað af dönskum leikmönnum. Svo bætast við tveir kanar og einn Serbi og tveir Litháar.”

{mosimage}

Jesper Krone þjálfari SISU 

Þá heyrði karfan.is í Jesper Krone þjálfara liðsins og spurði hvernig honum litist á að fá Lárus.
„Lárus hefur æfti með SISU í rúmlega viku og ég er mjög ánægður með hann sem leikmann og einstakling. Hann gefur sig 100% í allar æfingar og hlustar vel og er auðvelt að þjálfa hann. Hann hefur einnig fallið vel inn í hópinn. Eftir fyrstu æfingu voru margir sem spurðu mig hvort hann myndi spila með okkur í vetur, þeim leist mjög vel á það.

Lárus kemur til liðs við félags sem hefur misst þrjá leikstjórnendur frá síðasta tímabili, svo hann ætti að eiga góðan séns á miklum spilatíma. Hann er góður stjórnandi og leiðir hópinn, það er einmitt leikmaður sem við höfum þörf fyrir. Ég hef trú á að það hversu ákafur hann er á æfingum smiti út frá sér til hinna í liðinu, sem gerir ekkert nema að gera liðið betra.

Við erum að bíða eftir tveimur litháískum leikmönnum og þangað til þeir koma er Lárus eini alvöru leikstjórnandinn sem við erum með. Það er m.a. ein af ástæðunum fyrir því að hann er gríðarlega mikilvægur fyrir liðið okkar.

Ég er vissum að Lárus og SISU eiga eftir að vinna vel saman og ég hlakka mikið til að þjálfa hann á komandi tímabili”

Þess má geta að Þorsteinn Hallgrímsson sem var ein helsta hetja Íslendinga milli 1960 og 1970 lék með SISU á meðan hann var í námi í Kaupmannahöfn og vann með þeim 4 meistaratitla og var talinn einn af bestu leikmönnum Norðurlanda á þeim tíma. Þá spilaði Jón Kr. Gíslason með félaginu upp úr 1990.

Lárus hefur leikið í 9 tímabil í Úrvalsdeildinni með Hamri, KR og Fjölni. Hann hefur leikið 187 leiki og skorað 8,35 stig að meðaltali í leik. Þá lék hann 8 landsleiki með A landsliði Íslands á árinu 2004.

[email protected]

Mynd af Lárusi: [email protected]
Mynd af Jesper Krone: www.bkamager.dk

Fréttir
- Auglýsing -