Stjarnan hefur framlengt samninga sína við bakvarðaparið Hilmar Smára Henningsson og Ægir Þór Steinarsson fyrir komandi átök í Bónus deild karla. Staðfesti félagið þetta á blaðamannafundi í Ásgarði rétt í þessu.
Ægir og Hilmar voru með bestu leikmönnum deildarinnar á síðustu leiktíð, en þar fóru þeir fyrir Stjörnunni sem vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil eftir sigur gegn Tindastóli í oddaleik úrslita í Síkinu á Sauðárkróki.
Þá var Ægir Þór valinn besti leikmaður deildarinnar á árlegu lokahófi, en það er í fyrsta skipti sem hann hlýtur þá nafnbót.
