23:28
{mosimage}
(Stórleikur Hildar dugði ekki til fyrir KR í kvöld)
,,Það voru bara ekki allir að hitta í kvöld en við vorum samt að fá fín skot en svona er þetta bara,“ sagði Hildur Sigurðardóttir leikmaður KR sem í kvöld gerði 30 stig og tók 11 fráköst fyrir röndóttar sem lágu 64-68 í annarri úrslitaviðureign sinni gegn deildarmeisturum Hauka í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna. Staðan er því 1-1 í einvíginu og mætast liðin í Hafnarfirði á fimmtudag.
,,Auðvitað er fúlt að vera búinn að taka heimaleikjaréttinn af Haukum og tapa svo hér heima en við búnar að vinna stóra leiki á Ásvöllum og vitum að við getum það alveg aftur. Það er fínt að spila í Hafnarfirði og við getum alveg unnið Hauka á þeirra heimavelli,“ sagði Hildur en KR vann fyrsta leik liðanna í úrslitaseríunni og sló Hauka út úr Subwaybikarnum í Hafnarfirði svo bikarmeisturunum líður ekki illa að Ásvöllum.
Aðspurð um hvort einhver þreyta væri kominn í hóp KR svaraði Hildur: ,,Jú jú, það má vera en við erum með fínan sjúkraþjálfara sem sinnir okkur mjög vel og það heldur okkur gangandi. Við erum í fínu formi og þolum því álagið vel, það er ekkert mál,“ svaraði Hildur sem viðurkenndi að frákastabaráttan í þessu einvígi skipti miklum sköpum.
,,Við erum að berjast við þær í teignum og þær eru mjög hávaxnar þannig að við þurfum að stíga þær miklu betur út. Við lentum líka í vandræðum með þennan þátt á Ásvöllum í fyrsta leiknum svo við þurfum að vinna í þessu ef við ætlum að taka þær því fráköstin hafa verið fleyta okkur langt á þessu tímabili,“ sagði Hildur en þó KR hafi unnið frákastabaráttuna í kvöld með 42 fráköst gegn 38 hjá Haukum voru það Hafnfirðingar sem fóru með sigur af hólmi.