Það er heldur betur sviptingar hjá Helga Magnússyni í Svíþjóð í vetur. Í gær var þriðji þjálfarinn í vetur kynntur til sögunnar og heitir sá Wally Smith og hefur gert garðinn frægan í Svíþjóð.
Eins og menn muna eflaust tók Sigurður Ingimundarson við liðinu í sumar en hætti svo með þá eftir nokkra leiki og við tók Björn Hjalmarsson. Í gær sagði hann svo starfi sínu lausu og við tók Wally Smith. Wally þessi er margreyndur þjálfari sem hefur unnið marga titla í Danmörku og var m.a. aðstoðarþjálfari hjá Solna veturinn 2006-07. Síðastliðið tímabil þjálfaði hann Uppsala sem kom verulega á óvart og datt út í undanúrslitum fyrir Solna.
Björn Hjalmarsson fráfarandi þjálfari Solna sagði í samtali við heimasíðu félagsins að hann hafi verið farinn að upplifa það að enginn hlustaði á það sem hann lagði til. Auk þess hefur liðinu gengið illa undanfarið miðað við væntingar félagsins. Því hafi hann ákveðið að hleypa öðrum að til að snúa við þeirri neikvæðni sem er í kringum liðið.
Næsti leikur Solna er á föstudag þegar liðið tekur á móti Gothia.
Mynd: Bildbyrån