spot_img
HomeFréttirHelena: Frábært að vera í þeirri aðstöðu að geta boðið stelpum til...

Helena: Frábært að vera í þeirri aðstöðu að geta boðið stelpum til mín í flottar æfingabúðir

 

Landsliðskonan Helena Sverrisdóttir í samstarfi með Haukum mun nú seinna í mánuðinum halda stelpubúðir í körfubolta. Búðirnar eru fyrir allar stelpur á aldrinum 7-16 ára, en búðunum verður aldursskipt, þar sem að þær eldri fá örlítið lengri dagskrá. Allar frekari upplýsingar um tímasetningu, skráningu og verð er að finna á Facebook síðu búðanna hér, eða hér fyrir neðan.

 

Við heyrðum í Helenu og spurðum hana aðeins út í búðirnar.

 

Nú er þetta ekki í fyrsta skipti sem þú skipuleggur þessar körfuboltabúðir, hvernig finnst þér þetta hafa þróast hjá ykkur?

"Já ég er ekki með nákvæma tölu en held að þetta sé í ca 8 skiptið sem við höldum stelpubúðir. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt á hverju ári – en þetta er orðið ágætlega reynt hjá okkur og hefur gengið mjög vel undanfarin ár"

 

Þessar búðir eru sérstaklega fyrir stelpur, afhverju er mikilvægt að halda sérstakar búðir fyrir þær?

"Já mér finnst mikilvægt að bjóða uppá körfuboltabúðir þar sem bara stelpur mæta til leiks. Bæði þegar ég var yngri að sækja æfingabúðir og einnig eftir að heyra frá mörgum öðrum stelpum þá týnast þær oft mikið í búðum með strákum, t.d. í spilinu vilja strákarnir ekki gefa á þær og þess háttar. Þess vegna finnst mér frábært að vera í þeirri aðstöðu að geta boðið stelpum til mín í flottar æfingabúðir þar sem markmiðið okkar er að hver og ein stelpa njóti þess að æfa körfu og hafi gaman af"

 

Hvað er svona það helsta sem boðið verður upp á þetta árið?

"Í ár eins og undanfarið verðum við með stóran part af búðunum í stöðvum þar sem við skiptum þeim upp og þær vinna í öllum hliðum körfuboltans og einnig er stöð með styrktaræfingar. Svo í ár verður Finnur Magnússon íþróttafræðingur með fyrirlesturinn "Íþróttir og næring" þar sem stelpurnar munu fá góðan grunn í mataræði og hversu mikilvæg það er með íþróttaiðkun. Svo verður auðvitað mikið um spil og leiki og við reynum okkar besta í að hafa þetta jafnt krefjandi og skemmtilegt fyrir stelpurnar"

 

 

Hlakkar þig til?

"Já ég hlakka mikið til, þetta er orðið partur af hverju sumri hjá mér og ég bíð spennt eftir þessu. Þetta er auðvitað mikil vinna og mjög mikið skipulag sem þarf en ég passa bara að vera með allt á hreinu áður en búðirnar byrja og þá gengur þetta vel. Ég læri oftast eitthvað nýtt á hverju ári og á öll gögn frá fyrri árum og get því reynt að hafa allt svo gott sem tilbúið sama hvað gæti komið uppá"

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -