09:00
{mosimage}
Landsliðsleikmennirnir Helena Sverrisdóttir og María Ben Erlingsdóttir munu dagana 20.-22. júní næstkomandi standa að körfuboltabúðum fyrir stelpur á aldrinum 10-15 ára. Búðirnar fara fram að Ásvöllum í Hafnarfirði en Karfan.is náði tali af Helenu sem sagði að þessi hugmynd að stelpubúðum hefði verið nokkurn tíma í vinnslu hjá henni og Maríu. Helena sagði einnig að reynt yrði að hafa búðirnar persónulegar þar sem hún og María munu m.a. deila reynslu sinni af ferlinum með iðkendum búðanna en í vetur léku þær báðar á sínu fyrsta ári með bandarískum háskólaliðum. Eins og flestir vita er það töluvert stærra í sniðum en íslenskar körfuknattleikskonur eiga að þekkja hér heimafyrir.
Hvernig datt ykkur landsliðskonunum í hug að fara af stað með stelpubúðir?
Við erum búnar að vera að ákveða þetta í vetur og þegar við spjölluðum við fólk þá leist því vel á þessa hugmynd. Okkur langaði að hafa körfuboltabúðir aðeins fyrir stelpur því það var ekki hægt þegar við vorum yngri. Okkur langar að stelpurnar upplifi alvöru körfuboltabúðir sem eru í svipuðum stíl og í Bandaríkjunum.
Hvernig hefur skráningin gengið?
Við erum búin að fá mjög jákvæðar móttkökur. En það er enn nóg af plássi fyrir skráningu og við hvetjum stelpur til að koma í búðirnar okkar!
Verður þetta byggt upp með þeim hætti sem þið eigið að kynnast frá Bandaríkjunum?
Jú, við höfum farið í körfuboltabúðir í Bandaríkjunum og prógrammið sem við erum með er mjög svipað og þarna úti. Við ætlum að reyna að hafa þetta meira persónulegra og vera mikið með leikmönnunum og hafa kvöldvökur þar sem við deilum okkar reynslu á körfubolta-ferlinum með stelpunum.
Hversu mikil þörf er á auknum æfingaúrræðum fyrir ungar körfuknattleikskonur?
Það er fullt af körfuboltabúðum í boði, en núna erum við bara með búðir fyrir stelpur þar sem þær geta notið sín og þurfa ekki að vera að sýna sig fyrir strákunum. Það er alltaf hægt að æfa sig meira og auka-æfingin skapar meistarann.
Skráning í körfuboltabúðirnar fer fram á netfanginu [email protected]