Skallagrímsmenn höfðu betur gegn Njarðvíkingum í kvöld þegar liðin mættust í 16-liða úrslitum Powerade bikarsins í Borgarnesi. Liðið var meira og minna yfir í leiknum þó gestirnir frá Njarðvík væru aldrei langt undan. Skallagrímsmenn voru hins vegar betri á lokakaflanum og lönduðu að endingu langþráðum sigri 77:68. Þeir eru þar með komnir áfram í 8-liða úrslit, í fyrsta skipti síðan 2011. Heimasíða Skallagríms greinir frá.
Heimamenn byrjuðu mun betur í leiknum og náðu fljótt nokkurra stiga forystu. Njarðvíkingar minntu þó á sig og komust yfir 10:12 þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Þá tók við 7-0 áhlaup Skallagrímsmanna sem breytti stöðunni í 17:12. Okkar menn bættu ofan á áhlaupið og voru níu stigum yfir 23:14 þegar fyrsta leikhluta lauk.
Munurinn hélst áfram inn í annan leikhluta. Liðin skoruðu sitt á hvað og var útlit fyrir að okkar menn myndu halda Njarðvíkingum í skefjum. Í stöðunni 35:25, um miðbik leikhlutans, spyrntu gestirnir hins vegar við fótum og komu með 0-13 áhlaup á næstu þremur mínútum. Pétur Ingvarsson þjálfari Skallagrímsmanna tók loks leikhlé í stöðunni 35:38 til að messa yfir sínum mönnum. Ein karfa frá Sigtryggi Arnari Björnssyni skilaði sér í kjölfarið og reyndist hún síðasta karfa leikhlutans. Staðan í hálfleik 37:38 fyrir Njarðvíkinga.
Skallagrímsmenn mættu dýrvitlaustir til þriðja leikhluta staðráðnir í að vinna upp forskot á nýjan leik. Árangurinn var eftir því og náðu þeir tólf stiga forskoti 53:41 eftir um fjögurra mínútna leik. Njarðvíkingar klóruðu í bakkann og með góðri vörn náðu þeir muninum niður í fjögur stig 53:49 þegar leikhlutanum lauk. Leikurinn var í járnum á fyrstu mínútum fjórða leikhluta. Hægt og rólega söxuðu Njarðvíkingar á Skallagrímsmenn með þeim afleiðingum að þeir komust einu stigi yfir þegar fjórar mínútur voru eftir 62:63. Þá kom góður kafli hjá okkar mönnum í sókn sem vörn sem kom þeim 74:68 yfir þegar rúm mínúta var eftir. Munaði töluvert um tvær þriggja stiga körfur frá Sigtryggi Arnari Björnssyni á þessum kafla. Tilraunir Njarðvíkinga til að komast aftur inn í leikinn báru ekki árangur í lokasóknunum og því lönduðu Skallagrímsmenn kærkomnum sigri þegar laukflautan gall í leikslok. Lokastaðan 77:68 fyrir Skallagrím.
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson