spot_img
HomeFréttirHaukur missir af Íslendingaslagnum í kvöld

Haukur missir af Íslendingaslagnum í kvöld

Haukur Helgi Pálsson verður ekki með LF Basket í kvöld þegar liðið tekur á móti Sundsvall Dragons í mikilvægum slag í sænsku úrvalsdeildinni. Haukur er með sýkingu í hæl og fær ekki grænt frá læknum til að vera með. „Ég gæti einnig misst af leiknum næsta föstudag en ég tek þetta á mig því hinn valkosturinn er að spila og láta þetta ágerast og þá mögulega þurfa að fara í uppskurð,“ sagði Haukur við Karfan.is í dag.
 
 
„Það er leiðinlegt að missa akkúrat af þessum leik því ég er 4-0 gegn Íslendingaliðunum hér í Svíþjóð, reyndar hef ég bara tapað einum Íslendingaslag og það var gegn Jóni Arnóri þegar hann var með Zaragoza og ég var með Manresa,“ sagði Haukur en hann gerir sér fyllilega grein fyrir mikilvægi leiksins í kvöld.
 
„Já þetta er stór leikur, ef við vinnum þá eru liðin orðin jöfn að stigum og þá höfum við betur gegn þeim innbyrðis. Síðasti leikurinn á tímabilinu er svo gegn Sundsvall á útivelli svo þetta er engan veginn búið en það er í raun fáránlegt hve deildin er jöfn hjá okkur,“ sagði Haukur en efstu sex lið deildarinnar eru með 36-32 stig. Prógrammið framundan hjá LF er þétt því liðið mætir Sundsvall í kvöld og svo eru framundan leikir gegn toppliðum Uppsala og Boras.
 
Peter Öqvist fyrrum landsliðsþjálfari Íslands er þjálfari LF og stýrir nú uppeldisklúbbnum sínum. „Hann vill vinna þetta allt saman, hann er að þjálfa heimaliðið sitt og svo er þetta gegn Sundsvall sem hann þjálfaði hér áður svo það er kannski smá meiri pressa í kvöld,“ sagði Haukur og kvað alla klára í slaginn utan sjálfs síns. LF fékk á dögunum einnig nýjan leikmann sem er Breti og heitir William Neighbour og kemur frá liði í 2. deildinni á Spáni. Neighbour leikur sinn annan leik fyrir LF í kvöld en hans fyrsti leikur var í óvæntu heimatapi LF gegn KFUM Nassjö í síðustu umferð.
 
Sex Íslendingar leika í sænsku úrvalsdeildinni í ár og segist Haukur vera í góðum samskiptum við kappana. Sundsvall mætti í gær og fékk Haukur að fara og fá sér í gogginn með Hlyni, Jakobi, Ægi og Ragnari, snæðingur í faðmi óvinarins.
 
„Ég spjallaði við strákana í gær á meðan við borðuðum saman enda eru þeir örugglega komnir með algert ógeð hver á öðrum og gott fyrir þá að fá ferskt blóð inn í hópinn,“ sagði Haukur sposkur en gerðist öllu alvarlegri þegar við færðum talið yfir í átt að landsliðssumrinu.
 
„Já það er mikið til umræðu, vinir manns jafnvel úr grunnskóla sem voru ekkert í körfu ætla sér að fara til Berlínar og áhuginn er mikill. Þetta er alltaf á bak við eyrað hjá manni en auðvitað er allur fókusinn á yfirstandandi tímabili en maður er vissulega spenntur,“ sagði Haukur en á hann ekki von á blóðugri baráttu um sætin í liðinu fyrir EM?
 
„Allir vilja mínútur, komast inn og fá að sanna sig. Ég held annars að það viti enginn raunverulega hvernig hópurinn verði á endanum og ekki einu sinni þjálfararnir. Þeir standa frammi fyrir stórri ákvörðun og það verður mikil pressa að velja þessa 12 leikmenn. Eins og kom fram í viðtali við landsliðsþjálfarann eru mörg sæti sem enn eru ekki skrifuð í stein og mögulega fara einhverjir í hópinn sem eiga eftir að koma á óvart enda margir ungir að standa sig vel úti sem og heima en þetta kemur allt saman í ljós.“
  
Fréttir
- Auglýsing -