KR og Haukar mættust í DHL-höllinni í kvöld en þá fór fram 13. umferð Iceland Express deildarinnar og sú næst síðasta fyrir jól. Þegar liðin mættust síðast þá stöðvuðu Haukastúlkur sigurhrinu KR og sú varð einnig raunin í kvöld.
Heimastúlkur mættu ákveðnari til leiks og komust í 8-0 með þristum frá Sigrúnu og Bryndísi en Haukar héldu haus og trú á sínu skipulagi og unnu sig fljótt inní leikinn. Margrét Rósa sem átti afbragðsleik kom gestunum síðan yfir 13-15 en sú var staðan eftir fyrsta leikhlutann. Margrét Rósa opnaði svo annan leikhluta með þrist og setti tóninn fyrir því sem koma skildi í leikhlutanum. Gestirnir héldu naumu frumkvæði það sem framan var af leikhlutanum en í stöðunni 19-23 skildu leiðir. Hver þriggja stiga karfan á fætur annarri fór að rata rétta leið hjá Haukastúlkum en flæði í sóknarleik þeirra var einstaklega gott og skotval til fyrirmyndar. Á sama tíma hertist vörnin sem um munaði og heimastúlkur áttu í stökustu vandræðum að koma boltanum í körfuna. Þessi flotti körfuboltakafli skilaði Haukum 13-3 áhlaupi og leiddu þær 41-26 í hálfleik. Það var við hæfi að Íris Sverrisdóttir ætti lokaorðið í leikhlutanum með þriggja stiga körfu en það var sjöundi þristurinn sem Haukar settur í leikhlutanum úr aðeins 9 tilraunum.
Stigaskorið hjá Haukum var að dreifast vel í fyrri hálfleiknum. Íris var með 9 (3/4 í þristum), Margrét Rósa 8, Hope Elam 7, Jence Rhoads 6 og Auður Ólafsdóttir átti dúndurinnkomu og smellti niður 2 þristum. Hjá KR liðinu var Sigrún Ámundadóttir stigahæst með 9 stig en aðrir með minna. 12 af 26 stigum KR kom af vítalínunni í hálfleiknum. Villustaðan í hálfleiknum var áhugaverð, einungis 3 villur á KR meðan Haukar höfðu fengið 11 dæmdar á sig. Það var þó frekar til marks um muninn á ákefðinni í vörninni en Haukastúlkur pressu Ericu Prosser leikstjórnanda KR liðsins stíft allan völlinni og gerðu heimastúlkum erfitt um vik allan hálfleikinn.
KR liðið mætti grimmara til leiks í seinni hálfleiknum en gestirnir áttu svör við öllum aðgerðum og komust í 32-47 eftir tæplega fjagra mínútna leik. Þá hrökk KR vörnin í gírinn og hófu þær að saxa á forskotið hægt og rólega. Með samstilltu átaki og mikilli orku í vörninni fóru þær á 11-0 áhlaup og héldu Haukastúlkum án stiga í tæpar fjórar mínútur. Hope Elam braut svo loksins isinn fyrir Hauka í stöðunni 43-47 með góðri körfu og víti að auki. Tvær körfur í viðbót frá Elam sáu til þess að forysta gestanna væri nokkuð þægileg en þær leiddu 47-54 eftir þriðja leikhlutann. Haukastúlkurnar virtust hafa snöggkólnað í hálfleik en ekkert þriggja stiga skot fór ofaní hjá liðinu í seinni hálfleik.
Í upphafi fjórða leikhluta benti allt til að æsispennandi lokamínútur væru í vændum en KR liðið náði að minnka muninn tvisvar sinnum í þrjú stig. Margrét Kara sem hafði hægt um sig í kvöld smellti niður þrist og breytti stöðunni í 56-60 en þá fór af stað kafli þar sem hreinilega ekkert gekk upp hjá hvorugu liðinu í sóknarleiknum. Það var loks Jence Rhoads sem tók leikinn í sínar hendur og fór að deila út stoðsendingum hægri vinstri ásamt því að koma með hvert varnar,,play-ið“ á fætur öðru. 6 stig í röð komu gestunum í 10 stiga forskot þar sem auðveld hraðupphlaupskarfa frá Margréti Rósu eftir sendingu frá Rhoads endaði vonir heimastúlkna um sigur. Gestirnir sigldu svo leiknum þægilega í höfn á lokamínútunum en svo virtist sem KR stúlkur hefðu hreinlega sprungið þar sem hver misheppnaði sendingin leit dagsins ljós, fæstar undir alvöru varnarpressu, og öll skot voru stutt. Svo fór að lokatölur urðu 58-70 fyrir Hauka en KR skoruðu einungis 4 stig síðustu sex og hálfu mínútu leiksins.
Stigahæst í liði gestanna var Hope Elam með 20 stig og 8 fráköst. Hún tók af skarið á mikilvægum tímapunkti í lok þriðja leikhlutar þegar svo virtist sem KR liðið ætlaði að komast framúr. Hin unga Margrét Rósa hélt uppá landsliðshópstilnefningu með virkilega flottum leik en hún setti 16 stig. Maður leiksins var þó Jence Rhoads. Rhoads sýnir það og sannar að tölfræði skiptir ekki öllu máli og er hún þannig leikmaður að allir leikmenn í kringum hana virðast blómstra. Hún dreifði spilinu vel og stýrði leik liðsins af stakri snilld á báðum endum vallarins og lauk leik með 10 stig, 9 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Þær Guðrún Ósk Ámundadóttir og Íris Sverrisdóttir áttu einnig góðan leik og skiluðu sínum hlutverkum vel.
Hjá heimastúlkum bar Sigrún Ámundadóttir af með 17 stig en hún virtist hverfa full mikið í seinni hálfleiknum. Margrét Kara var hins vegar fjarverandi í fyrri hálfleiknum en átti góða spretti í þeim seinni og lauk leik með 12 stig. Bryndís Guðmundsdóttir átti fína spretti framan af leik og skilaði 9 stigum sem og Helga Einarsdóttir. Miklu munaði um að Hafrún Hálfdánardóttir lék einungis 5 mínútur vegna veikinda. Erica Prosser sem var í stífri gæslu allan leikinn lauk leik með 7 stig og 5 stoðsendingar. Liðið tapaði 21 bolta í leiknum sem réði miklu um úrslit leiksins en Haukastúlkur enduðu með 10 tapaða sem verður að teljast gott.
Eftir leiki kvöldsins situr KR liðið enn í þriðja sæti með 16 stig en liðin tvö fyrir ofan, Keflavik og Njarðvík, biðu einnig lægri hlut. Með sigrinum náðu Haukarnir, sem sitja i 4. sæti, hins vegar að minnka muninn niður í 2 stig og með hagstæðum úrslitum á laugardaginn gætu þær verið í þriðja sætinu yfir hátíðirnar þar sem þær hafa haft betur í innbyrðis viðureignum við KR. Baráttan um sæti í úrslitakeppninni er í algleymingi en með 14 stig, jafnmörg og Haukar eru Snæfellsstúlkur sem eru í 5.sæti og svo Valsstúlkur skammt undan með 10.
Það er því ljóst að framundan er skemmtilegur seinni hluti tímabilsins í Iceland Express deilda kvenna þar sem lítið má útaf bera ef liðin ætla sér í úrslitakeppnina.
Punktar:
• Halldór Geir Jensson og Davíð Hreiðarsson voru ágætir dómarar leiksins.
• Vel var mætt í stúkuna úr Hafnarfirði og studdu þeir Haukastúlkurnar vel allan leikinn.
• Sex af leikmönnum liðanna voru nýlega valdar í fyrsta æfingahóp Sverris Sverrissonar, A-landsliðsþjálfara en þetta voru þær Bryndís, Margrét Kara, Sigrún og Helga hjá KR og Íris og Margrét Rósa hjá Haukum.
• KR liðið lýkur fyrri hluta tímabilsins á laugardaginn er þær fara í heimsókn til Keflavíkur í Toyota-höllina og hefst leikurinn kl 16.00
• Haukastúlkur fá hins vegar Hamar í heimsókn í Schenkerhöllina og hefst sá leikur einnig kl 16.00
Undirritaður vill að lokum óska Jóni Birni og vefsíðunni Karfan.is innilega til hamingju með 6 ára afmælið. Sá metnaður og fagmennska sem Nonni og félagar hafa sýnt körfuboltanum á Íslandi er honum ómetanlegur og sú óeigingjarna sjálfboðaliðavinna sem unnin er ber að þakka og virða. Til hamingju með daginn!
Umjföllun/ Finnur Freyr Stefánsson