spot_img
HomeFréttirHaukasigur í Hafnarfirði

Haukasigur í Hafnarfirði

Haukar mættu ÍR í IE – deildinni á Ásvöllum í gær og var ljóst að bæði lið þyrftu á sigri að halda og í raun um fjögra stiga leik að ræða. ÍR hafði fyrir leikinn einungis sigrað einn leik en Haukar tvo. Svo fór að heimamenn unnu góðan sigur á ÍR og sitja nú í 7. sæti deildarinnar með 6 stig úr sex leikjum en ÍR er sem stendur í 11. sæti með 2 stig.
 
Leikurinn var jafn frá fyrstu mínútu en ÍR byrjaði betur með tveimur góðum körfum og komust í 5-0. Haukar voru ekki lengi að ná þessum stigum upp og komast yfir. Haukar fundu taktinn og náðu tíu stiga forskoti en seigla ÍR-inga skilaði þeim flottum körfum og var leikurinn jafn eftir fyrsta leikhluta 26-26.
 
Það sama var upp á teningnum í öðrum leikhluta. Liðin skiptust á körfum og forustan var ýmist hjá heimamönnum eða gestunum. Haukar gengu í leikhléið með þriggja stiga forystu 49-46.
 
Í raun eins og fram hefur komið var þessi leikur ótrúlega jafn og erfitt að finna eitthvað eitt sem stóð upp úr. Þriðji og fjórði leikhluti spiluðust alveg eins og þeir fyrri og fyrir loka leikhlutann leiddu Haukar með einu stigi, 62-61.
 
Það var ekki fyrr en á lokamínútunni sem að Haukar gerðu út um leikinn. Þeir komust í 8 stiga forskot þegar innan við mínúta var eftir og í raun var það of mikill biti fyrir ÍR að kyngja. Þeir minnkuðu þó muninn en Haukar héldu þessum átta stigum fram á loka sekúndurnar þegar að ÍR-ingar minnkuðu muninn og lokatölur leiksins 93-87 heimamönnum í vil.
 
Semaj Inge heldur áfram að spila sig inn í hug og hjörtu Haukamanna en þessi magnaði bakvörður skoraði 32 stig fyrir Haukaliðið og má segja að ekki hafi farið mikið fyrir þeim. Þó fór ekki fram hjá neinum hans eina troðsla í leiknum en þá sveif hann í einar 360° og smellti knettinum í körfuna. Haukar TV náðu þessu á myndband og má sjá það á heimasíðu Hauka.
 
Semaj var eins og segir stigahæstur Hauka með 32 stig en hann var einnig með 7 fráköst. Gerald Robinson var með 20 stig og 21 frákast og Sævar Ingi Haraldsson var með 14 stig og 5 stoðsendingar.
 
Hjá ÍR var Nemanja Sovic fremstur meðal jafningja með 26 stig og 7 fráköst. Kelly Biedler gerði 17 stig og tók 11 fráköst og Vilhjálmur Steinarsson og Kristinn Jónasson voru báðir með 12 stig.
 
 
 
emil@karfan.is
 
Mynd: Óskar Magnússon var traustur í liði Hauka- stebbi@karfan.is
 
Fréttir
- Auglýsing -