spot_img
HomeFréttirHaukar sigruðu Val í Schenkerhöllinni

Haukar sigruðu Val í Schenkerhöllinni

Haukar sigruðu Val þegar liðin áttust við í Schenkerhöllinni í kvöld í annarri umferð Domino‘s deildar kvenna. Liðin eru hvort um sig með tvö stig eftir fyrstu tvær umferðirnar líkt og KR og Skallagrímur en Stjarnan og Snæfell sitja á toppi deildarinnar með fullt hús stiga.

Valur byrjaði leikinn betur og náðu gestirnir 5 stiga forskoti á upphafsmínútunum. Haukar fundu þó fljótlega taktinn, fóru að nýta skot sín betur og sigu jafnt og þétt fram úr. Þær náðu mest 12 stiga forskoti í fyrri hálfleik en Valskonur skoruðu síðustu 5 stig annars leikhluta og minnkuðu muninn niður í 7 stig fyrir hálfleik.

Brooke Johnson skoraði fyrstu stig seinni hálfleiks fyrir Val og minnkaði muninn niður í 5 stig en þriggja stiga skotsýning Hauka sem fylgdi í kjölfarið setti 15 stig á milli liðanna og reyndist það Valskonum um megn að brúa það bil. Haukar lönduðu því nokkuð öruggum 12 stiga sigri, 75-63.

LeLe Hardy var öflug og skilaði þrefaldri tvennu fyrir Hauka í kvöld, skoraði 17 stig, tók 20 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Sigrún Björg Jónsdóttir var stigahæst Hauka með 20 stig auk þess að taka 6 fráköst og Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði 13 stig og gaf 11 stoðsendingar.

Hjá Val var Brooke Johnson stigahæst með 24 stig og 7 fráköst og Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði 13 stig og tók 7 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik

Fréttir
- Auglýsing -