spot_img
HomeFréttirHaukar lögðu vanstillta nýliðana

Haukar lögðu vanstillta nýliðana

Nýliðar Skallagríms mættu Haukamönnum í fyrstu umferð Domino‘s-deildarinnar í kvöld. Haukaliðið er að margra mati öllu lakara nú en á síðasta tímabili og ekki bætti úr skák að Emil Barja ferðaðist um Schenker-höllina á hækjum. Hvort gestirnir gætu nýtt sér það átti svo eftir að koma í ljós.

 

Þáttaskil:

Jafnt var á öllum tölum lungann úr fyrsta leikhluta en Haukar leiddu þó með 6 stigum að honum loknum. Heimamenn hertu svo tökin í öðrum leikhluta og fátt féll með gestunum. Haukar komu sér fljótt 10 stigum yfir og héldu 10-15 stiga forystu lengi vel. Þrátt fyrir ágætt áhlaup piltanna frá höfuðstað Vesturlands í kringum miðjan síðasta fjórðunginn þar sem munurinn fór niður í 6 stig kom allt fyrir ekki. Nokkuð öruggur sigur heimamanna í Haukum, 80-70, í höfn.

 

Tölfræðin lýgur ekki:                                     

Skotnýting Hauka var svo sem ekki nema þokkaleg en hjá gestunum var hún einfaldlega hörmuleg. 39% tveggja stiga nýting, 10% þriggja stiga nýting og 62% vítanýting er sjaldan skotnýting sigurliðs.

 

Hetjan:

 Aaron Brown skilaði 23 stigum og 13 fráköstum hjá Haukum. Flenard Whitfield skilaði enn betra dagsverki hjá gestunum með 32 stigum og 14 fráköstum.

 

Tilþrif leiksins:

Whitfield opnaði leikinn með glæsilegri alley-oop troðslu eftir sendingu frá S. Arnari. Hann bætti við tveimur kraftmiklum troðslum síðar í leiknum. Alltaf jafn gaman af slíkum tilþrifum.

 

Kjarninn:

Fyrrnefnd skotnýting gestanna varð þeim að falli í kvöld. Líta mætti einnig á varnarleik liðanna en Borgnesingar voru oft á tíðum á hælunum og buðu Haukum upp á þægileg og auðveld stig. Svæðisvörnin sem kom Skallagrími upp í deild þeirra bestu dugði ágætlega á köflum í seinni hálfleik en Finnur Jóns veit sem er að gegn köppum eins og Hauki Óskarssyni er slíkt tvíeggja sverð.

 

Haukar eiga eflaust eftir að slípa sig betur saman í vetur og nýir menn gætu átt eftir að láta meira að sér kveða. Það er auðvitað áfall fyrir hvaða lið sem er að missa Emil Barja í meiðsli og Haukamenn vafalaust því fegnir að hafa landað sigri og 2 stigum í kvöld. Borgnesingar þurfa að þétta maður á mann-vörnina hjá sér og skytturnar að stilla miðið fyrir næsta leik – þá munu fá lið geta bókað sigur gegn þeim.

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Mynd / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -