spot_img
HomeFréttirHaukar lögðu Val þægilega í Ólafssal

Haukar lögðu Val þægilega í Ólafssal

Haukar lögðu Val í kvöld í 2. umferð Subway deildar kvenna, 77-62. Eftir leikinn eru Haukar við topp deildarinnar með tvo sigra á meðan að Valur er einum sigurleik fyrir aftan, með einn tapaðan og einn unninn eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Fyrir leik

Enn voru Helena og Lovísa Björt  frá vegna meiðsla hjá Haukum og Guðbjörg ekki með Val en þrátt fyrir það er alveg óhætt að segja að spennan var ágæt fyrir þennan leik enda leiktíðin byrjuð og fólk orðið óþreygjufullt að mæta á góða leiki.

Byrjunarlið Hauka: Eva Margrét, Keira, Emma Sóldís, Tinna og Elísabeth

Byrjunarlið Vals:  Ásta Júlía, Hallveig, Dagbjört, Kiana og Simone

Gangur leiks

Eva Margrét byrjaði sterkt fyrir Hauka en Valsstúlkur  virkuðu eilítið óslípaðar í samspili og alltof margar sendingar rötuðu ekki rétta leið.  Dagbjört fékk stórt hlutverk að dekka Keiru með góðri aðstoð samherja í byrjun leiks en villurnar fóru að hrannast upp á allt liðið. Simone leikmaður Vals  var mistæk í sókn í byrjun leiks og það hélt áfram sem þýddi aðeins eitt fyrir hana en hún eyddi löngum stundum á bekknum svona miðað við að vera atvinnumaður í Valsliðinu en hún á væntanlega helling inni..

Haukakonur keyrðu vel á þær og uppskáru auðveldar körfur en  Valskonur voru seinar til baka sem þýddi villu vandræði. Fyrstu skiptingar Vals komu snemma þar sem körfurnar létu á sér standa en Hallveig og Dagbjört fóru út af fyrir Eydísi og Söru sem verður að teljast  góð skipting enda brutu þær ísinn fyrir Val og settu niður sitthvora körfuna. Fyrsti leikhluti var ekki Valskvenna en liðið var með fleiri villur en stig eða 8 liðsvillur eftir fyrsta leikhluta og staðan 13-5 Haukum í vil.

Elín Sóley mætti inn á fyrir Val sem átti í vandræðum með fráköstin og hjálpaði til í teignum en þrátt fyrir það héldu villurnar áfram að hrannast upp og Valur ekki að hitta vel. 

Í öðrum leikhluta byrjaði engin byrjunarliðs manneskja hjá Val inn á en fljótlega komu inn Ásta Júlía og Hallveig fyrir Söru og Elínu Sóleyju. Valskonur virtust örlítið hressari eftir bekkjarsetuna og Hallveig setti góðan þrist og Kiana setti sín fyrstu stig og staðan orðin 16-10 enda fylgdu Valskonur þessu eftir með betri vörn sem gerði Haukakonum erfitt fyrir. 

Emma Sóldís fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu sem var óþarfi en það kom ekki að sök því Haukar héldu áfram að keyra á Valskonur sem voru enn seinar aftur og Haukar að fá villur og setja vítaskotin niður. Það má ekki taka af Haukum að þær spiluðu hörku vörn og voru í öllum lausum boltum. Eva Margrét lét virkilega taka til sín  á báðum vallarhelmingum. Óli henti í tæknivillu enda erfitt að sitja undir þessari spilamennsku en Valur var að spila mun grófar og var hreinlega að elta of mikið í vörn. Staðan í hálfleik varn31–22 Haukum í vil.

Sami haustbragurinn hélt áfram í  byrjun seinni hálfleiks en bæði liðin gerðu klaufaleg mistök og hittnin ekki til útflutnings. Eftir um tveggja mínútna leik setti Emma Sóldís niður langan  þrist og Ásta Júlía fór í fallega hreyfingu hinu megin og setti  körfu.  Kiana lét dómgæsluna fara í taugarnar á sér og uppskar tæknivillu en það var augljóst að Valskonur ætluðu ekki að leyfa dómurum að taka sig út úr leiknum. Enn og aftur náðu Haukar að keyra leikinn upp vegna lélegra sendinga hjá Val og uppskáru Haukar auðveld stig og staðan orðin 43-29.  

Mikill hiti varð þegar Kiana braut nokkuð gróft á Evu Margréti í hraðaupphlaupi en það hefði auðveldlega verið hægt að dæma óíþróttamannslega villu á Kiöru en dómarar leiksins ákváðu í sameiningu að halda henni inn á enda hefði önnur svona villa þýtt útilokun fyrir hana.  Áfram hélt Valur svæðispressu en uppskeran var yfirleitt auðveld karfa fyrir Hauka. Kiana var ekki í takt við leikinn og hreinlega klaufaleg í aðgerðum og skapið gerði henni erfitt fyrir enda komin með 4 villur í lok 3 leikhluta. Valskonur fengu á sig 4 tæknivilluna þegar Ásta Júlía lét dómarana fara í taugarnar á sér í upphafi fjórða leikhluta en Valsstúlkur spiluðu með sitt besta lið inn á nánst allan leikinn enda heiðurinn að veði og allt kapp lagt á að minnka stiga muninn sem var einfaldlega of mikill sérstaklega þegar maður hugsar út í það að Haukar eigi inni tvo byrjunarliðs leikmenn. Valskonur munu ekki eiga marga svona leiki í vetur enda góðir leikmenn í hverri stöðu en Haukar eiga líka inni tvo byrjunarliðs leikmenn þannig að þessi leikur verður ekki eitthvað sem koma skal.

Keira  og Eva Margrét áttu góðan leik þrátt fyrir nokkra pústra en létu það aldrei fara í skapið á sér og spiluðu af mikilli yfirvegun en Keira stýrðii leik Hauka nánast óaðfinnanlega en það var klárlega liðsheild Hauka sem gerði gæfu muninn á liðunum í kvöld. Valskonur virtust eiga eitthvað í land í að ná að vinna saman en það mun breytast og það fljótt.

Haukar: Keira Breeanne Robinson 27/10 fráköst/7 stoðsendingar/6 stolnir, Eva Margrét Kristjánsdóttir 17/10 fráköst, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 13/6 stoðsendingar, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 12/4 fráköst, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 3/8 fráköst, Jana Falsdóttir 3, Sólrún Inga Gísladóttir 2, Dagbjört Gyða Hálfdanardóttir 0, Agnes Jónudóttir 0, Kristín Pétursdóttir 0, Laufey Arna Jónsdóttir 0.


Valur: Kiana Johnson 15/5 fráköst/5 stoðsendingar, Hallveig Jónsdóttir 10, Ásta Júlía Grímsdóttir 9/8 fráköst, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 8, Eydís Eva Þórisdóttir 6/4 fráköst, Simone Gabriel Costa 6, Margret Osk Einarsdottir 4, Sara Líf Boama 2/4 fráköst, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir 2/6 fráköst, Elísabet Thelma Róbertsdóttir 0, Stefanía Silfá Sigurðardóttir 0, Tanja Kristín Árnadóttir 0.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

https://www.karfan.is/2022/09/eva-margret-eftir-leikinn-gegn-val-margar-tilbunar-ad-stiga-upp/
https://www.karfan.is/2022/09/olafur-eftir-leikinn-i-olafssal-vid-maettum-bara-ekki-til-leiks/
Fréttir
- Auglýsing -