Haukar eru Lengjubikarmeistarar kvenna 2011 eftir 63-61 spennusigur á Keflavík í úrslitum keppninnar sem fram fór í Dalhúsum í Grafarvogi í dag. Jence Rhoads fór mikinn í liði Hauka með 34 stig og 10 fráköst en Jaleesa Butler var atkvæðamest í liði Keflavíkur með 19 stig og 19 fráköst.
Íris Sverrisdóttir kom Haukum í 6-9 er hún skoraði og fékk villu að auki en Keflvíkingar beittu svæðisvörn sem Haukar leystu vel í byrjun. Þegar leið á upphafsleikhlutann þéttu Keflvíkingar vörnina og leiddu 18-16 að loknum fyrsta leikhluta.
Haukar höfðu frumkvæðið í öðrum leikhluta þar sem hin magnaða Jence Rhoads leiddi þær áfram og Hafnfirðingar voru yfir 28-32 í hálfleik þar sem Rhoads var með 19 stig og 3 fráköst. Þá var Íris Sverrisdóttir með 5 stig í liði Hauka. Jaleesa Butler var atkvæðamest í liði Keflavíkur í hálfleik með 11 stig og 11 fráköst og Birna Valgarðsdóttir var með 8 stig.
Hafnfirðingar opnuðu síðari hálfleik af krafti og náðu 2-11 áhlaupi og staðan 28-40 þegar Falur Harðarson tók leikhlé fyrir Keflvíkinga. Eitthvað hafa þjálfarar Keflavíkurliðsins komið við kauninn í sínum leikmönnum sem fóru strax að saxa á muninn en Haukar leiddu þó 45-49 að loknum þriðja leikhluta með vel þegnum þristi frá Margréti Rósu Hálfdánardóttur sem voru lokastig leikhlutans.
Sara Rún Hinriksdóttir var lífleg í Keflavíkurliðinu á lokasprettinum og jafnaði leikinn í 57-57 en þá hafði hún skorað sex stig í röð fyrir Keflvíkinga. Verður spennandi að fylgjast með Söru í vetur sem er liðsmaður í U16 ára landsliði Íslands og einn af efnilegri leikmönnum þjóðarinnar um þessar mundir.
Lokaspretturinn var í járnum en Jence Rhoads stal boltanum, skoraði og fékk villu að auki og kom Haukum í 62-59 þegar skammt var eftir. Keflvíkingar misnotuðu svo tvö víti til að komast yfir þegar 28 sekúndur voru eftir.
Jaleesa Butler fékk sína fimmtu villu þegar Keflvíkingar brutu á Haukum þegar 10 sekúndur voru til leiksloka og Keflavík braut svo strax aftur til að fá Hauka á vítalínuna í stöðunni 61-62 Haukum í vil. Jence Rhoads hitti þá bara úr fyrra vítinu og staðan 61-63 en Sara Pálmadóttir tók þá mikilvægt sóknarfrákast og dæmt var uppkast þar sem Keflvíkingar hrúguðst strax á Söru. Haukar áttu boltann eftir uppkastið, tóku hann inn og Keflvíkingum tókst ekki að brjóta á þeim að nýju og Haukar því Lengjubikarmeistarar með 61-63 sigri.
Stigaskor:
Keflavík: Jaleesa Butler 19/19 fráköst/4 varin skot, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 16/6 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 11, Helga Hallgrímsdóttir 6/8 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 4/4 fráköst/6 stoðsendingar, Aníta Eva Viðarsdóttir 3, Hrund Jóhannsdóttir 2/4 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, Sigrún Albertsdóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, Soffía Rún Skúladóttir 0.
Haukar: Jence Ann Rhoads 34/10 fráköst/5 stolnir, Íris Sverrisdóttir 11/6 fráköst, Margrét Rósa Hálfdánardótir 6/4 fráköst, Guðrún Ósk Ámundardóttir 6/7 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 5/5 stolnir, Sara Pálmadóttir 1/10 fráköst, Sólrún Inga Gísladóttir 0, María Lind Sigurðardóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Ína Salóme Sturludóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0.
Dómarar: Halldór Geir Jensson og Eggert Þór Aðalsteinsson
Mynd/ [email protected] – Lengjubikarmeistarar Hauka 2011