spot_img
HomeFréttirHaukar áttu endasprettinn í Röstinni

Haukar áttu endasprettinn í Röstinni

Grindavík og Haukar mættust í Röstinni í Grindavík í kvöld í jöfnum leik sem einkenndist af mikilli baráttu allt fram í síðasta leikhluta, þar sem Haukastúlkur tóku öll völd á vellinum og sigldu 12 stiga sigri í höfn nokkuð örugglega.
 
 
Grindavíkurstúlkur fóru mun betur af stað en Haukar og eftir um 5 mínútna leik var staðan 11-2. Haukarkonur náðu þó aðeins að bíta frá sér og laga stöðuna og staðan eftir fyrsta leikhluta var 15-9, heimastúlkum í vil.
 
Fyrir leikinn höfðu sumir gárungar haldið því fram að Haukaliðið væri að mestu borið uppi af einum leikmanni, hinni bandarísku LeLe Hardy, sem t.a.m. skoraði 29 stig í síðasta leik á móti Keflavík og tók 26 fráköst. Tröllatvennurnar gerast ekki mikið stærri. Sverrir Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, hefur væntanlega lagt upp með það fyrir leikinn að stoppa hana og gekk það ótrúlega vel eftir í fyrsta leikhlutanum þar sem að LeLe skoraði 0 stig í 4 tilraunum, og munar um minna fyrir Hauka.
 
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, gerði miklar breytingar á sínu liði fyrir 2. leikhluta. Hann róteraði grimmt og hikaði ekki við að setja byrjunarliðskonur á bekkinn. Um miðjan leikhlutann urðu Haukar svo fyrir miklu áfalli þegar LeLe Hardy fékk högg á vinstri höndina og lá hún óvíg eftir á gólfinu í all langan tíma. En Haukar létu mótlætið ekki buga sig og unnu að lokum leikhlutann, 12-19 og staðan því 27-28 Haukum í vil í hálfleik.
 
LeLe Hardy snéri aftur til leiks eftir hálfleik, vel vafinn á fingrum vinstri handar en það virtist lítið há henni. Hún var að vísu ekki að hitta vel en skilaði engu að síður 22 stigum áður en yfir lauk og var glettilega nálægt því að ná ansi magnaðari þrennu, en hún tók einnig 17 fráköst og stal 9 boltum.
 
En þriðji leikhlutinn var eign Grindvíkinga. Eftir smá ströggl í byrjun kom hin 19 ára Jeanne Sciat þeim á bragðið með stórum þristi og fékk víti að auki. 4 stiga sókn og Grindavíkurstúlkur komnar yfir. Jeanna átti mjög flotta innkomu af bekknum í kvöld, kom með mikla orku í leikinn og var að berjast í öllum boltum og lét finna vel fyrir sér. Heimastúlkur tóku þriðja leikhluta 25-21 og staðan því 52-49 fyrir loka fjórðunginn og í raun allt í járnum.
 
En þá má í raun segja að allt hafi farið til andskotans hjá Grindvíkingum. LeLe Hardy setti í fluggírinn og var illviðráðanleg en mestu munaði þó sennilega um það að ekkert gekk upp sóknarmegin hjá Grindvíkingum. Sókn eftir sókn köstuðu þær frá sér boltanum og virtust á stundum hreinlega vera ragar við að skjóta í góðum færum. Mikið hnoð og þvingaðar sendingar einkenndu sóknarleik þeirra og þær köstuðu alls frá sér 7 boltum í leikhlutanum, en 7 er líka heildarfjöldi stiga sem þær settu í honum. Það fór því svo að lokum að Haukar unnu nokkuð öruggan sigur, 59-71, í leik sem var mjög jafn og spennandi fyrstu þrjá leikhlutana.
 
LeLe Hardy var eins og áður sagði með rosalegar tölur hjá Haukum en þurfti ansi mörg skot til að safna stigunum í sarpinn. Þá átti Sylvía Rún Hálfdánardóttir fínan leik, en hún skoraði 14 stig og tók 9 fráköst.
 
Hjá Grindavík var það bandaríski leikmaðurinn, Rachel Tecca, sem var yfirburðaleikmaður á vellinum í dag en hún var því miður oft nánast ein að draga vagninn. Hún setti 22 stig og tók 11 fráköst, en næst kom María Ben með 10 stig og 5 fráköst. Pálína Gunnlaugsdóttir var mjög dugleg framan af, og reif niður ein 6 sóknarfráköst í fyrri hálfleik en boltinn var ekki að detta hjá henni í kvöld og hún setti aðeins 2 körfur í 13 tilraunum. Heilt yfir voru Grindavíkurstúlkur að hitta mjög illa í kvöld, voru aðeins með 2 þriggja í 17 tilraunum (11,8% nýting)
 
 
Umfjöllun/ Siggeir Fannar Ævarsson
Myndir og myndasafn/ Davíð Baldursson
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -