spot_img
HomeFréttirHáspenna í Hellinum

Háspenna í Hellinum

Það var vægast sagt hart barist í Hellinum, Seljaskóla, í kvöld þegar ÍR-ingar tóku á móti Stjörnunni úr Garðabæ. Stjörnumenn voru fyrir leikinn í öðru sæti deildarinnar en ÍR-ingar í því sjöunda.
Stjörnumenn hófu leikinn af miklum kraft og komust fljótt í 12 stiga forskot, 18-6. Fannar Helgason var öflugur bæði undir körfunni sem og fyrir utan þriggja stiga línuna og skoraði fyrirliði Garðbæinga 9 stig í fyrsta leikhluta. ÍR-ingum tókst að saxa aðeins á forskot Stjörnumanna um miðbik fjórðungsins en Stjörnumenn héldu þó dampi og leiddu með 10 stigum að loknum einum leikhluta, 16-26.
 
ÍR-ingar byrjuðu annan leikhlutann ágætlega. Stjörnumenn voru þó fljótir að ná yfirhöndinni aftur og héldu henni út fyrri hálfleik. Stjörnumenn voru að spila sterka vörn, og leikur beggja liða einkenndist af mikilli baráttu. Eiríkur unglamb Önundarson átti góða innkomu fyrir Breiðhyltinga í fjórðungnum og setti nokkra góða þrista, en að loknum fyrri hálfleik leiddu gestirnir með 7 stigum.
 
Heimamenn komu vígreifir til leiks í seinni hálfleik. Stoppað var í öll göt í vörninni og Robert Jarvis og Jimmy Bartolotta stigu upp í sóknarleiknum. Stundum einkenndist leikurinn þó af heldur mikilli baráttu, en leikmönnum tókst þó að halda “kúlinu”. Um miðjan leikhlutann tókst ÍR-ingum svo að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum, en sú ánægja var þó skammvinn og Stjörnumenn tóku sig saman í andlitinu og leiddu með þremur stigum fyrir lokaleikhlutann, 65-68, og allt útlit fyrir hörkuspennandi endasprett.
 
Endaspretturinn olli heldur engum vonbrigðum. Bæði lið börðust eins og ljón, en leikurinn varð þó ekkert sérlega fallegur fyrir vikið. Þegar um 20 sekúndur voru eftir átti Stjarnan boltann og geystust í sókn. Dæmd var sóknarvilla á Guðjón Lárusson og heimamenn fengu tækifæri til að stela sigrinum, en einu stigi munaði á liðunum, 82-83. Jimmy Bartolotta fékk boltann og keyrði að körfunni, en boltinn rann úr greipum hans. Stjörnumenn náðu honum og Dagur Kár Jónsson rakti knöttinn út leiktímann, frábær eins stigs sigur hjá Garðbæingum.
 
Fannar Freyr Helgason var stigahæstur gestanna með 22 stig og 9 fráköst en einvígi hans og Nemanja Sovic var ansi hatrammt á köflum. Keith Cothran og Justin Shouse komu næstir með 18 stig hvor. Hjá heimamönnum var Robert Jarvis stigahæstur með 25 stig og Bartolotta skoraði 21. Hörkuspennandi leikur sem hefði getað endað á hvorn veginn sem var.
 
Stjörnumenn eiga svo ekki langt frí fyrir höndum en strax annað kvöld keppa þeir við stórlið Stjörnunnar B. Mætti segja að um leik Davíðs og Golíats sé að ræða, en Stjarnan B er margfaldur Íslandsmeistari B-liða. Vert er að mæla með leiknum, en hann hefst klukkan 19:15 í Ásgarði, föstudaginn 9.desember.
 
 
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson
Fréttir
- Auglýsing -