spot_img
HomeFréttirHáskólaboltinn: Kári Jóns farinn af stað með Drexel

Háskólaboltinn: Kári Jóns farinn af stað með Drexel

Tímabilið í háskólaboltanum hófst í Bandaríkjunum í nótt með miklum fjölda leikja. Íslendingar hafa aldrei átt fleiri leikmenn sem spila þar eins og núna og því tilvalið að skoða hvernig tímabilið fór af stað fyrir okkar menn: 

 

Kristófer Acox hóf sitt síðasta ár með Furman í gærkvöldi. Liðið tapaði þá fyrir Presbyterian með tveim stigum í hörku opnunarleik. Kristófer splaði 34 mínútur og skilaði 6 stigum og 8 fráköstum. 

 

Kári Jónsson spilaði sinn fyrsta leik í háskólaboltanum er lið hans Drexel tapaði fyrir Monmouth. Kári setti þrjú þriggja stiga skot í leiknum úr átta skotum. Það voru hans einu stig í leiknum í 24 mínútur en hann spilaði sem skotbakvörður í leiknum. 

 

Líkt og greint var frá í gær tók Kristinn Pálsson og félagar í Marist á móti sterkasta liði háskólaboltans Duke. Marist tapaði örugglega 49-94 en í liði Duke eru meðal annars Harry Giles og Jayson Tatum sem eru taldir enda mjög ofarlega í nýliðavalinu í NBA á næsta ári. 

 

Mynd/ Skúli Sig beint frá USA. 

 

Tómas Þórður Hilmarsson lék átta mínútur með Francis Marion háskólanum er liðið tapaði gegn Catawba í NCAA 2 deildinni. Tómas var með tvö stig og tvö fráköst fyrir liðið er hann var inná. 

 

Gunnar Harðarson leikur þá með Belmont Abbey sem tók á móti Mars Hill sem vann leikinn 77-88. Gunnar spilaði 21 mínútu og endaði með 2 stig og 2 stoðsendingar. 

 

Þá hóf Lovísa Björt Henningsdóttir leik með Marist er liðið tapaði gegn Hofsta 42-62. Hún endaði með 3 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar á 12 mínútum. Hún leikur síðan aftur á sunnudaginn gegn Rhode Island. 

 

Margrét Hálfdánardóttir og Sara Rún Hinriksdóttir sem leika með Cansius College spiluðu æfingarleik á miðvikudag gegn Daemen og unnu góðan sigur þar sem Margrét var með 13 stig og spilaði vel. Þær hefja tímabilið gegn Northeastern á sunnudag. 

 

Hildur Björg Kjartansdóttir leikur enn með Texas háskóla en hún er nálægt því að skrá sig í sögubækurnar þar vegna frammistöðu sinnar síðustu ár. Hún hefur leik í kvöld gegn Nebraska háskólanum. 

 

Fleiri íslenskir leikmenn spila á næstu dögum. Afmælisbarn dagsins Elvar Már Friðriksson spilar fyrsta leik vetrarins í kvöld gegn Johnson & Wales Wildcats. Það gerir einnig Jón Axel Guðmundsson sem spilar með sterkasta liði deildarinnar af íslendingunum Davidson en liðið mætir Appalachian State í kvöld. Gunnar Ólafsson og St. Francis Brooklyn spila á morgun sinn fyrsta leik. 

 

Mynd / Facebook síða Marist.

Fréttir
- Auglýsing -