11:35
{mosimage}
Melissa Mitidiero
Mánudagskvöldið 2. mars tóku Hamarsstúlkur á móti Val í Hveragerði. Um var að ræða fyrri leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í IcelandExpress deild kvenna. Hamarsstúlkur byrjuðu vel og komust í stöðuna 14 – 9 eftir 4 mínútur. Stuðningurinn úr stúkunni var gríðarlegur og mátti sjá hvernig það hjálpaði stelpunum. Hamarsstúlkur voru yfir nánast allann leikinn og sigruðu fyrsta leikhlutann með 28 stigum gegn 21.
Valsstúlkur voru þónokkuð betri í 2. leikhluta en þær minnkuðu forystu Hamarskvenna niður í 1 stig, 33-32. Valsstúlkur náðu þó ekki að jafna í þeim leikhluta þar sem þær hvítklæddu hrukku í gang og breyttu stöðunni í 39 – 32. Öðrum leikhluta lauk svo með 43 stigum gegn 38, Hamri í vil.
Bæði lið komu frekar róleg í þriðja leikhlutann þar sem ekkert stig var skorað fyrr en eftir 2 og hálfa mínútu og féll það stig Vals megin. Ennþá komust Hvergerðingarnir ekki í gang og vildi boltinn ekki í körfuna hjá þeim fyrr en eftir rúmar 3 mínútur. Þá var staðan orðin 45 – 39 Hamarsstúlkum í vil. Lokastaðan eftir þriðja leikhluta var 53 – 50 fyrir Hamri og var ljóst að spennan yrði gríðarleg fyrir 4. og seinasta leikhlutann.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi fjórða leikhluta eða allt þangað til í stöðunni 58 – 56 þegar þær hvítklæddu skildu Valskonur eftir í reykmökki og breyttu stöðunni í 68 – 58. Eftir það sáu Valskonur ekki til sólar og leiknum lauk með sigri Hamars með 72 stigum gegn 63.
Atkvæðamest hjá Hamri var Julia Demirer með 23 stig, 19 fráköst og 5 stoðsendingar en næst kom La Kiste Barkus með 21 stig, 6 fráköst og 11 stoðsendingar. Einnig var gaman að sjá að Fanney Lind Guðmundsdóttir stóð sig vel í kvöld og setti 15 stig og tók 8 fráköst.
Hjá Val var Melissa Mitidiero atkvæðamest með 22 stig og 4 fráköst en næst henni kom Signý Hermannsdóttir með 18 stig og hirti hvorki meira né minna en 21 frákast.
Seinni leikur liðanna fer fram að Hlíðarenda næstkomandi miðvikudagskvöld og þá kemur það í ljós hvort að Valskonur nái að knýja fram oddaleik eða hvort að Hamarsstúlkur geri út um einvígið.
Pistill: Jakob Hansen
Mynd: Torfi Magnússon