spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaHamar-Þór með frábæra ferð í Hólminn!

Hamar-Þór með frábæra ferð í Hólminn!

Í Stykkishólmi mættust Snæfell og Hamar-Þór í 1. deild kvenna. Bæði lið eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni og var því búist við hörku leik.

Gangur leiks

Fyrstu mínúturnar einkenndust af hægum bolta og litlu stigaskori. Snæfell spilaði 2-3 svæðisvörn og reyndu að loka teignum hjá Hamar-Þór. Það var lítil stemmning í stúkunni og dauft yfir öllu. Leikhlutinn endaði 12-18 fyrir Hamar-Þór. Í byrjun annars leikhluta örlítið kom meiri ákefð og hraði í leikinn. Heimakonur enn í svæðisvörninni og voru að gefa þriggja stigaskot, helst í hornunum sem Hamar-Þór nýtti sér ágætlega með opnum skotum eða með því að ráðast á veiku hliðina sem koma seint út í sóknarmennina. Snæfell voru að ráðast á vörn Hamars-Þórs og opna fyrir skytturnar sem biðu fyrir utan þriggja stiga línuna. Hamar-Þór hugsuðu mikið um að stoppa Rebekku Rán og spiluðu eins konar box og 1 vörn á hana. Það riðlaði leik Snæfells og voru heimakonur í miklum vandræðum sóknarlega. Vandræðin sáust best með því að skoða stoðsendingarnar hjá liðinu en þær voru aðeins 6 í fyrri hálfleiknum en liðið er vanalega með góða boltahreyfingu í leikjum sínum. Í hálfleik voru gestirnir með 36-31 forystu. Stigaskor Snæfells að deilast vel á liðið en þær Astaja Tyghter og Julia Demirer drógu vagninn sóknarlega í annars ungu og spræku liði Hamars-Þórs.

Leikurinn var svipaður í byrjun seinni hálfleiks nema að Hamar-Þór virtust vera komnar í maður á mann vörn og það kom Snæfell á bragðið sóknarlega. Rósa Kristín spilaði vel á kafla í þriðja leikhluta og setti 7 stig á stuttum tíma. Rebekka Rán náði að losa sig örlítið betur og finna liðsfélaga í opnum skotum eða sniðskotum. Allt annað að sjá Snæfell í leikhlutanum. Hamar-Þór áttu hins vegar erfitt með að finna opna leið að körfunni og voru á löngum köflum í basli að skora. 52-51 fyrir Snæfell eftir þrjá leikhluta.

Fjórði leikhluti var stál í stál þangað til mínúta var eftir en þá voru gestirnir með 5 stiga forskot. Gestirnir náðu í frábæran sigur í Hólminum í dag og þær köfuðu djúpt í reynsluna og gæðin hjá erlendu leikmönnunum, þær skoruðu alls 33 stig af 38 stigum liðsins í seinni hálfleik og enduðu leikinn með trölla tvennur. Framlag liðanna voru nokkuð ójöfn Snæfell 62 og Hamar-Þór 92 en þar spila 14 fleiri fráköst Hamars-Þór stóra rullu ásamt skotnýtingu liðanna. Leikurinn endaði 67-74 fyrir gestina sem fara heim með frábæran sigur í farteskinu. Heimakonur voru ekki alveg á sínum degi en það bíður þeirra undanúrslita leikur í VÍS-bikarnum á fimmtudaginn á móti Breiðablik.

Staðan

Liðin halda sínum sætum í deildinni en Hamar-Þór banka á dyrnar og hóta því að komast í úrslitakeppnina, þær sitja í 7. sætinu en Snæfell í 3. sæti. Það er því mikil spenna í 1. deild kvenna og við hvetjum alla til að fylgjast vel með og mæta á leikina.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Sumarliði Ásgeirsson)

Fréttir
- Auglýsing -