spot_img
HomeFréttirHamar taplausir eftir 8 umferðir (umfjöllun)

Hamar taplausir eftir 8 umferðir (umfjöllun)

22:07
{mosimage}
(Jason Pryor var með 32 stig gegn sínum gömlu félögum í Val, mynd úr safni)

Topplið fyrstu deildarinnar Hamar tók á móti Valsmönnum í Hvergerði í kvöld.  Hamar hefur ekki tapað leik á tímabilinu en Valsmenn höfðu fyrir leikinn tapað tveimur leikjum í röð. Hamar lét ekki eftir sér bíða og höfðu náð 10 stiga forskoti þegar leikurinn var rétt nýhafinn.  Valsmenn náðu þó smám saman að koma sér inní leikinn og þegar flautað var til hálfleiks munaði aðeins tveimur stigum.  Hamar áttu hins vegar seinni hálfleik eins og hann lagði sig og náðu hátt í 20 stiga forskoti á tímabili.  Marvin Valdimarsson var stigahæstur í liði Hamars með 33 stig en næstir voru Jason Pryor með 32 stig Svavar Páll Pálsson með 14 stig.  Hjá Val var Steingrímur Ingólfsson stigahæstur með 25 stig en næstir voru Hörður Hreiðarsson með 23 stig og Hjalti Friðriksson með 12 stig.  

Hamar byrjaði leikinn mun betur, þeir náðu 12-2 forskoti með fantavörn og virtust ekki eiga í vandræðum með að brjóta vörn gestana á bak aftur.  Heimamenn spiluðu svæði allan fyrsta leikhluta.  Valsmenn náðu þó að nýta sér það einstaka sinnum þegar þeir fengu opin þriggja stiga skot og héldu sér þannig inní leiknum.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður var 17-8 heimamönnum í vil.  Gestirnir vöknuðu aðeins seinni hluta leikhlutans sóknarlega og náðu að skora 19 stig áður en leikhlutanum lauk. Hamar skoraði hins vegar 30 stig og höfðu þess vegna 11 stiga forskot. 

Valsmenn náðu að koma sér inní leikinn í öðrum leikhluta og nýttu færin sín mun betur en í fyrsta leikhluta.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn kominn niður í 1 stig, 38-37.  Valsmenn höfðu þá náð 8 stiga áhlaupi á heimamenn.  Águst Björgvinsson þjálfari Hamars tók leikhlé stuttu seinna.  Valsmenn komust í fyrsta skiptið yfir þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum, 42-43.  Heimamenn áttu hins vegar lokaorðið í fyrri hálfleik og leiddu með tveimur stigum þegar flautað var til loka hans, 50-48. 

Liðin skiptust á að skora fyrstu mínútur þriðja leikhluta og þegar þrjár mínútur voru liðnar höfðu heimamenn ennþá tveggja stiga forskot, 59-57.  Hamar tók þá við sér og skoraði næstu 7 stig leiksins og höfðu 9 stiga forskot þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum.  Valsmenn virtust alveg vera búnir að missa allan kraftinn úr sóknarleik sínum og þegar tvær mínútur voru eftir var staðan 67-58 og höfðu gestirnir því aðeins skorað 10 stig í leikhlutanum.  Valsmenn skoruðu ekki af opnu velli seinustu 5 mínútur leikhlutans og það nýttu heimamenn sér vel.  Þegar leikhlutanum lauk var forskot Hamars orðið 15 stig, 76-61. 

Valsmenn virtust ætla að mæta af fullum krafti inn í fjórða leikhluta og skoruðu fyrstu fjögur stigin.  Þeir virtust hins vegar ekki ætla að gera mikið meira því Hamar skoraði næstu 5 stigin og sigurviljinn skein úr andlitum hvergerðinga.  Ágúst Björgvinsson lét vel í sér heyra og hljóp líklega jafn mikið á hliðarlínunni eins og leikmenn liðsins.  Heimamenn voru farnir að fagna sigri þegar fjórar og hálf mínúta var eftir en þá var munurinn kominn upp í 19 stig, 87-68.  Leikmenn beggja liða gripu til þess ráðs að skjóta þriggja stiga í gríð og erg þegar fjórar mínútur voru eftir og bættist þess vegna vel í stigaskorið undir lok leiksins.  Það var ljóst undir lok leiksins að gestirnir voru búnir að gefast upp vel áður en leiknum lauk.  Hamar hafði á endanum 14 stiga sigur, 102-88. 

Tölfræði Leiksins
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0xOCZvX2xlYWc9MyZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0yOTU=

Umfjöllun
Gísli Ólafsson
Mynd
[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -