Snæfellsstúlkur byrjuðu feiknarvel og var mikil barátta í þeim strax í upphafi og komust í 8-3. Hamarsstúlkur voru að hitta og frákasta illa í byrjun á meðan Snæfell keyrði hratt í sóknum sínum. Hamar komst þó inn í leikinn og hélt í við Snæfell en þegar staðan var 14-9 fyrir Snæfell fékk Ágúst Björgvinsson tæknivillu fyrir munnsöfnuð og svo brottrekstur alla leið upp í stúku strax í kjölfarið. Kristen Green fór á línuna og setti niður fjögur vítaskot og lagaði stöðuna í 18-9. Hamarsstúlkur voru ekkert að leggja árar í bát þrátt fyrir þjálfaraleysið og löguðu stöðuna úr 26-18 fyrir Snæfell í 26-22 á lokasekúndunum með góðum stolnum boltum og var það staðan eftir fyrsta hluta.
Hamar komst yfir 28-29 um miðjann annann leikhluta og voru að sækja á en Snæfell gaf eftir og misstu kraftinn. Seinni hluta fjórðungsins verður ekki minnst sem varnarlega sinnaðrar spilamennsku en liðin skiptust á að skora á víxl en Snæfell hafði þó yfirhöndina 45-41 í leikhléi og var allt annar bragur á liði þeirra og baráttu frá fyrri leikjum. Hjá Snæfelli var Kristen Green komin með 20 stig, Hrafnhildur og Unnur Lára 6 stig hvor. Hjá Hamri var Koren Schram með 14 stig. Kristrún Sigrjónsdóttir 10 stig og Guðbjörg Sverrisdóttir 8 stig.
Snæfell sigli áfram og leyfði Hamri að elta og voru yfir vel af þriðja hluta. Bæði lið settu í stífann varnarleik til að byrja með og fóru ekki margar körfur ofan í. Hamar náði að klóra sig nær og var staðan 55-52 þegar Snæfell átti fimm stiga sprett og fóru í stuð sem dugði stutt þegar Hamar fór í sama stuð og staðan var 63-61 fyrir heimastúlkur í Snæfell eftir þriðja leikhluta.
Hamar gekk á lagið strax í byrjun fjórða hluta og komust yfir 63-66 eftir tvö vítaskot frá Hafrúnu Hálfdánardóttur og svo þrist frá Koren Schram. Hamar komst svo í 66-77 og voru að sperra sig svona í lokahlutanum. Gunnhildur og Unnur Lára voru komnar í villuvandræði með 4 hvor þegar Hamar gaf bara í og voru komnar 66-83 þegar um mínúta var eftir. Lítið gekk upp hjá Snæfellsstúlkum sem voru að missa boltann illa og reynsla Hamars var gríðalega mikilvæg í lokin. Leikurinn endaði svo 71-87 fyrir Hamri. Snæfellsstúlkur gáfu mikið í leikinn og voru mjög grimmar í þrjá hluta að halda Hamarsstúlkum fyrir aftan sig en styrkur Hamars að elta leikinn á enda og gefa svo í var gríðargóður en þær unnu fjórða hluta 26-8 sem skilaði góðum stigum í hús.
Hjá Snæfelli var Kristen Green að draga vagninn með 36 stig , 8 frák og 6 stoð. Hrafnhildur var með 8 stig. Hjá Hamri var Koren Schram með 26 stig. Kristrún með 18 stig og 12 frák. Sigrún Ámundar með 16 stig og 7 frák. Guðbjörg með 14 stig og 7 frák.
Símon B. Hjaltalín.
Mynd: Þorsteinn Eyþórsson