Haukakonur sáu ekki til sólar þegar þær komu í heimsókn til Hveragerðis í kvöld til þess að etja kappi við Hamar í Iceland Express deild kvenna. Hamarskonur komust í 14-0 í upphafi leiks og staðan eftir 1. leikhluta var 38-11. Staðan í hálfleik var 53-22. Athygli vakti að Kristrún Sigurjónsdóttir, Hamri, var með 100% nýtingu í hálfleik, 4 þrista og 2 tveggja stiga körfur. Nýting Hamars var góð heilt yfir litið og virtist flest allt ganga upp á móti máttlausum Haukum.
Eftir 3. leikhluta var staðan 74-47 og að lokum sigruðu Hamarsstelpur með 31 stiga mun, 89-58.
Haukar töpuðu 27 boltum á móti 12 hjá Hamri.
Hjá Hamri var það sem fyrr Jaleesa Butler sem var atkvæðamest með 24 stig og 9 fráköst. Næst á eftir henni kom Kristrún Sigurjónsdóttir með 22 stig. Slavica Dimovska gerði 18 stig. Fanney Lind gerði 10 stig og var með 6 stoðsendingar og Jenný Harðardóttir gerði 8 stig. Guðbjörg Sverrisdóttir gerði 4 stig. Íris Ásgeirsdóttir var með 3 stig.
Hjá Haukum var það Íris Sverrisdóttir sem var langatkvæðamest með 22 stig. Næst á eftir henni var það Guðrún Ámundadóttir sem gerði 8 stig. Ragna Margrét Brynjarsdóttir gerði 7 stig og tók 9 fráköst.
Pistill: Jakob F. Hansen
Ljósmynd/ Sævar Logi: Kristrún hitti vel gegn Haukum í kvöld