spot_img
HomeFréttirHamar í 7. sætið eftir sigur á ÍR

Hamar í 7. sætið eftir sigur á ÍR

Ótrúlegur fyrri hálfleikur Hamars-manna spilaði stóran þátt í því að þeir skriðu upp fyrir ÍR í deildinni í kvöld. Oddur Ólafsson er ágætis lýsingarorð á 1. leikhluta leiksins í kvöld. Það var hann sem opnaði leikinn með 3 stiga körfu. ÍR jafnaði í 3-3 og stuttu seinna var staðan 5-5. Þá var það sem Hamar skyldu Reykvíkingana eftir í reykjarmökki. Staðan eftir 1. leikhluta var 32-12 og það var Oddur Ólafsson sem lokaði honum eins og hann hóf leikinn, með þriggja-stigakörfu. Þessi ungi leikmaður var með hvorki meira né minna en 20 stig að loknum leikhlutanum.
Hamarsmenn bættu við 31 stigi í 2. leikhluta á meðan ÍR skoraði 19 stig staðan 63-31 og Oddur með 22 stig, Andre Dabney með 19 og Marvin með 11. Dabney var með 100% nýtingu í þriggja stiga skotum sínum, 6/6.
 
Í 3. leikhluta gáfu Hamarsmenn aðeins eftir en héldu þó muninum í 25 stigum. Mikill æsingur var í mönnum og uppskar Michael Jefferson hjá ÍR tæknivillu fyrir kjaftbrúk. 25 stig sem skyldu liðin af fyrir lokaleikhlutann, 80-55.
 
ÍR-ingar reyndu að bíta frá sér í síðasta leikhlutanum en það gekk ekki nægilega vel þó svo að vörn Hamars hefði getað verið betri. Þegar fimm mínútur lifðu leiks var staðan 91-74 og spurningin bara sú hve stór sigurinn yrði. Fyrri leikur ÍR og Hamars endaði með 26 stiga sigri ÍR svo gott yrði fyrir Hamar að vinna með meiri mun uppá innbyrðis viðureignina að gera. Það gekk hinsvegar ekki eftir, en það voru 21 stig sem skyldu á milli í lokin, 102-81.
 
Sigurinn má án efa skrifa stóran hluta á fyrri hálfleikinn, þar sem stoðsending fylgdi hverri körfu Hamarsmanna og liðsheildin var frábær.
 
Hjá gestunum var það Hreggviður Magnússon sem var atkvæðamestur með 19 stig og 8 fráköst. Eiríkur Önundarson kom honum næstur með 17 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Michael Jefferson var með 13 stig og Ólafur Þórisson með 10.
 
Hjá Hamri var það Marvin Valdimarsson sem var atkvæðamestur með 29 stig, 3 fráköst og 10 fiskaðar villur. Oddur Ólafsson kom honum næstur með 26 kvikindi og 4 fráköst. Andre Dabney var með 23 stig, Svavar Páll Pálsson 13 og Ragnar Ágúst Nathanaelsson skoraði 10 stig og tók 11 fráköst.
 
 
Pistill: Jakob Hansen
Ljósmynd/ Úr safni: Oddur Ólafsson byrjaði leikinn með látum í liði Hamars.
Fréttir
- Auglýsing -