spot_img
HomeFréttirHafþór: Snæfell mjög spennandi kostur

Hafþór: Snæfell mjög spennandi kostur

 
Bakvörðurinn knái Hafþór Ingi Gunnarsson býst ekki við því að verða grýttur í Borgarnesi þrátt fyrir að hafa samið nýverið við Snæfell í Iceland Express deild karla. Þetta verður í annað sinn sem Hafþór leikur með Hólmurum en það gerði hann síðast tímabilið 2003-2004.
,,Ég vona að ég verði ekki grýttur,“ sagði Hafþór í léttum dúr þegar Karfan.is hafði samband. ,,Ég var annars búinn að sækja um nám við Háskóla Íslands en fékk ekki inngöngu og svo fannst mér komin tími á breytingar hjá mér. Þó ég hafi einnig fengið nokkur önnur tilboð var Snæfell mjög spennandi kostur og liðið verður með ágætis mannskap í vetur,“ sagði Hafþór sem var staddur erlendis þegar Snæfell staldraði við í Borgarnesi á leið sinni í Hólminn með Íslandsmeistaratitilinn í farteskinu á þarsíðustu leiktíð.
 
,,Nei ég var ekki í þeirri mótttökunefnd, ég var erlendis þegar Snæfell vann Keflavík og auðvitað er maður á höttunum eftir einhverju svipuðu. Ég verð þrítugur eftir mánuð svo maður fer að komast á síðasta séns til að ná í dollu. Annars líst mér vel á hópinn sem er kominn þarna, það var góður kjarni fyrir og við það bætast tveir Bandaríkjamenn að auki,“ sagði Hafþór sem telur Skallagrímsmenn spjara sig vel án hans.
,,Jú það gera þeir, þarna eru mjög sprækir og ungir strákar að koma upp, þeir eru í menntaskólanum og búnir að standa sig t.d. vel með sameiginlega liðinu Snægrími og því held ég að veturinn verði bara fínn hjá Skallagrím.“
Hafþór býst við því að sinna stærra varnarhlutverki hjá Snæfell heldur en nokkurntíman sóknarhlutverki. ,,Ég og Nonni Mæju vorum samt á æfingu í gær að raða niður fyrir utan, maður mun samt leggja mikið á sig til að komast aftur í úrvalsdeildargírinn en það er mikill munur á deildinni og svo 1. deild. Maður þarf að leggja töluvert meira á sig til að vera á sama plani og aðrir leikmenn í úrvalsdeild,“ sagði Hafþór sem á næstu dögum flytur í Hólminn.
Mynd/ [email protected] – Hafþór leggur nú græna litinn til hliðar og klæðist Snæfells-rauðu í vetur.
Fréttir
- Auglýsing -