spot_img
HomeFréttirHælkrókur á heimamenn í öðrum fjórðung

Hælkrókur á heimamenn í öðrum fjórðung

 

Njarðvíkingar mættu í Stykkishólm til heimsóknar við Snæfellinga en bæði lið án stiga eftir fyrstu umferð. Leikurinn var jafn framan af en um miðjan annan leikhluta féllu Snæfellingar í ljónagryfjuna og Njarðvíkingar fengu þægilega forystu til að halda út leikinn og sigruðu með 21 stiga mun 83-104.

 

 

Kaflinn.

 

Um miðjan annan fjórðung voru Snæfellingar vaskir að halda í vagninn og fylgja Njarðvík eins og skugginn og munaði einu stigi 34-35 þegar Njarðvíkingar sögðu stopp og skelltu í tíu stiga mun 34-44 og svo 36-55 sem var hálfleiksstaðan en Corbin Jackson og Björn Kristjánsson fóru fremstir manna ásamt Loga Gunnarsson en Snæfellingar gerðust sekir um slæleg vinnubrögð á köflum og var refsað fyrir eftir fína pressu frá Njarðvík.

 

Tölulegar staðreyndir.

 

Corbin Jackson var kominn með 23 stig í hálfleik fyrir Njarðvík en af þeim voru eitthvað af þeim 16 stigum sem Njarðvík hafði sett Snæfell eftir tapaða bolta. Snæfellingar voru þó ekki slakari og höfðu vel við gestunum í fráköstum 21-22 og í stoðsendingum 21-9 en það er erfitt að eiga við lið sem skýtur 83% í tveggja stiga skotum og 95% 23/24 í vítaskotum sem gestirnir grænu voru að smella niður. Það verður þó ekki tekið af Snæfelli að skora 83 stig sem hefur oft dugað liðum til árangurs en þeir unnu fjórða hluta 25-20 og klárt mál fyrir þá að missa ekki trúnna.

 

Gangverkið í grófum.

 

Njarðvík voru skrefinu á undan í fyrsta hluta en naumt þó 14-15 um hann miðjan en Snæfellingar voru duglegir og héldu nálægt. Aðeins dró í sundur undir lokin og Njarðvík leiddi 22-29. Njarðvík leiddi áfram en Snæfellingar minnkuðu niður í 1 stig 34-35 í öðrum hluta en gestirnir voru snarir að malbika einstefnugötu og leiddu 36-55 í hálfleik. Njarðvíkingar voru sannarlega komnir í bílstjórasætið og gáfu engin færi á sér og leiddu eftir þriðja hluta með 26 stigum 58-84. Snæfellingar börðust vel fyrir sínu þrátt fyrir að vera vel undir en Njarðvík kláruðu leikinn 83-104.

 

Hetjur himingeimsins.

 

Corbin Jackson var einkar drjúgur fyrir Njarðvík með 28 stig en Björn Kristjánsson kom sterkur með 26 stig og var spila mjög vel á báðum endum vallarins sem ég myndi titla hetju þeirra heilt yfir. Ekki má gleyma að Logi Gunnars setti fjóra baneitraða þrista niður á góðum tímum. Hjá Snæfelli var Sefton Barret að leiða heimamenn með 20 stig og 7 fráköst og voru Jón Páll, Andreé og Maciej að komast ágætlega frá leiknum en þarna eru nokkrir ungir strákar að gera vel og slípa sig saman.

 

 

Umfjöllun / Símon B. Hjaltalín

Fréttir
- Auglýsing -