spot_img
HomeFréttirGuðmundur: Verðum að halda áfram á þessari braut

Guðmundur: Verðum að halda áfram á þessari braut

 
,,Þetta var aðeins of spennandi hér á lokasprettinum og mér fannst dómarar leiksins gefa Snæfell smá séns hér í lokin en vörnin okkar hélt þetta út að lokum,“ sagði Guðmundur Jónsson leikmaður UMFN eftir sigur sinna manna 89-87 á meisturum Snæfells í Iceland Express deild karla. Guðmundur gerði 14 stig í leiknum og hélt sínum mönnum við efnið á meðan Hólmarar gerðu stífa atlögu að sigrinum á síðustu sekúndum leiksins.
,,Við vorum að missa boltann á lélegum stöðum í sókninni og gerðum þetta þannig bara spennandi á lokasprettinum. Við hefðum getað klárað þennan leik í þriðja leikhluta en þetta er samt allt á réttri leið hjá okkur,“ sagði Guðmundur og ljóst að menn í Njarðvík hafa ekki gleymt opnunarleik mótsins hjá liðinu.
 
,,Við bara skömmuðumst okkar eftir frammistöðuna í Grindavíkurleiknum og það fékk menn til að líta í eigin barm og það hafði þau áhrif að t.d. hver einasti maður sem kom inn á völlinn í kvöld stóð fyrir sínu. Þetta er allt að koma og menn farnir að vita betur sín hlutverk í liðinu,“ sagði Guðmundur en hvernig leist honum á frammistöðu miðherjans, Friðriks Stefánssonar, í kvöld?
 
,,Vissulega er maður öruggari úti á velli í vörninni þegar maður veit af Frikka í teignum og miklu þægilegra að hafa hann í þessu frekar en leikmenn eins og mig að þvælast eitthvað í kringum körfuna,“ sagði Guðmundur léttur og sagði sigur kvöldsins tilfallinn til þess að blása enn meira öryggi inn í leik liðsins.
 
,,Við þurfum að byggja á þessu, þetta er ekkert alveg komið hjá okkur svo við verðum bara að halda áfram á þessari braut. Einnig var sterkt að leggja Snæfell sem hafa spilað mjög vel alveg síðan á undirbúningstímabilinu og mjög sterkur sigur hjá okkur þar sem Jóhann Árni var ekki með út af meiðslum,“ sagði Guðmundur en Jóhann var fjarverandi eftir smávægileg meiðsli sem hann hlaut í annarri umferð deildarinnar gegn ÍR.
 
Fréttir
- Auglýsing -