spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar sterkari á lokasprettinum í Smáranum

Grindvíkingar sterkari á lokasprettinum í Smáranum

Grindavík lagði Keflavík í Smáranum í kvöld í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Subway deild karla, 102-94. Grindvíkingar því komnir með yfirhöndina í einvíginu 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig í úrslitin.

Heimamenn í Grindavík hófu leik kvöldsins betur og ná mest 7 stiga forystu um miðjan fyrsta fjórðung. Keflvíkingar ná þó að spyrna við og minnka muninn fyrir annan leikhluta, 26-23. Í öðrum leikhlutanum ná Keflvíkingar svo góðum tökum á leiknum. Eru mest 9 stigum yfir um miðjan leikhlutann, en þá meiðist þeirra besti leikmaður Remy Martin og tekur ekki frekari þátt í leiknum. Að öðrum ólöstuðum hafði hann verið besti leikmaður vallarins til þessa í leiknum, með 18 stig á aðeins 11 mínútum spiluðum, en eftir meiðslin nær Grindavík að vinna niður forskotið og eftir glæsilegan flautuþrist frá DeAndre Kane eru þeir 2 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 56-54.

Stigahæstur fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Remy Martin með 18 stig á meðan að DeAndre Kane var kominn með 18 stig fyrir Grindavík.

Keflvíkingar gera vel að vera í fullum tygjum við Grindavík þrátt fyrir brotthvarf Remy í byrjun seinni hálfleiksins. Grindavík heldur þó forystunni út þriðjaleikhlutann, 77-72. Í upphafi þess fjórða fær lykilmaður í liði Grindavíkur DeAndre Kane sína aðra tæknivillu og er í kjölfarið rekinn út úr húsi. Keflavík nær áfram að halda í við Grindavík og skiptast liðin í nokkur skipti á forystunni. Undir lok leiksins nær Grindavík þó að halda rétt á spöðunum. Stoppa Keflavík varnarlega og fá nokkrar stórar körfur frá Dedrick Basile og Vali Orra Valssyni til þess að sigla að lokum nokkuð sterkum 8 stiga sigur í höfn, 102-94.

Atkvæðamestir fyrir Grindavík í leiknum voru DeAndre Kane með 24 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og Dedrick Basile með 24 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir Keflavík var Remy Martin atkvæðamestur með 18 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar. Honum næstur var Jaka Brodnik með 16 stig og 3 fráköst.

Annar leikur einvígis liðanna er á dagskrá komandi laugardag 4. maí kl. 19:15 í Blue höllinni í Keflavík.

Tölfræði leiks

Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta

Fréttir
- Auglýsing -