spot_img
HomeFréttirGrindavík uppúr fallsæti - Annar sigur liðsins í vetur kom gegn Keflavík...

Grindavík uppúr fallsæti – Annar sigur liðsins í vetur kom gegn Keflavík í dag

Grannarnir af Reykjanesinu, Grindavík og Keflavík mættust í dag í 20. umferð Dominosdeildar kvenna.  Hlutskipti liðanna ólík en Keflavík er í blóðugri baráttu um sæti 2 – 4 í deildinni en 4 lið raða sér þétt frá sæti 2 – 5 og fjögur lið komast í úrslitakeppnina.  KR er með 5 töp í 2. sæti, Haukar þar á eftir með 6 töp, Keflavík er með 7 töp og Skallagrímur með 8 töp.  Þar sem mikið er eftir þá er ómögulegt að spá fyrir um lokaniðurröðun.  Grindavíkurstelpurnar á hinum endanum og berjast með kjafti og klóm fyrir sæti sínu í deildinni en þær fóru inn í þetta ár sigurlausar en komust strax á blað eftir sigur gegn Breiðabliki og hafa síðan alltaf verið í jöfnum leikjum en tapað naumt.

Heimastúlkur byrjuðu heldur betur og leiddu til að byrja með en undir lok opnunarfjórðungsins náði Keflavík að síga fram úr og leiddi að honum loknum 21-23.

Sama barátta var í öðrum leikhluta og liðin skiptust á körfum og þegar leikhlutinn var hálfnaður kom Jordan Grindavík yfir með þrist en hún hafði haft sig nokkuð vel í frammi í stigaskoruninni og dró þann vagn fyrir nýliðana.  Vörn heimastúlkna var þarna orðin ansi sterk og ákvefðin mikil, kannski ekki síst sökum mikilla baráttukalla aðstoðarþjálfarans Nökkva Más en það er oft á tíðum algert bíó að vera nálægt þessum rólyndismanni þegar stelpur þeirra Jóhanns Árna eru í baráttunni, sérstaklega lætur Nökkvi í sér heyra þegar þær eru að verjast og er nánast kominn inn í teig eins og hann gerði á sínum gullaldarárum!  Lokaspretturinn var Grindavíkurstelpna og þær leiddu að loknum fyrri hálfleik, 34-31.

Fyrrnefnd Jordan var atkvæðamest Grindavíkurstúlkna og var komin með 14 stig og 3 stoðsendingar í hálfleik. Hin unga bráðefnilega Elísabet Ýr var búin að setja 7 stig.   Fyrirliðinn Hrund sá að mestu um fráköstin og var komin með 8 slík.

Hjá Keflavík var Kamilla Sól sem kemur af bekknum, búin að skora mest eða 10 stig en Salbjörg Ragna var þó búin að skila flestum framlagspunktum eða 15 (5 stig og 6 fráköst).

Liðin fundu ekki beint fjölina sína til að byrja með í seinni hálfleik og þegar þriðji leikhluti var hálfnaður  var staðan 4-4 í honum.  Grindavík virtist svo ætla að taka einhvern vott af yfirhönd og komst 5 stigum yfir, 40-35 en þá var eins og loki væri smellt yfir Keflavíkurhringinn og þær skoruðu ekki fyrr en Bríet jafnaði 43-43. Liðin skiptust á þristum það sem eftir lifði og Daniella Wallen Morillo sem hafði haft sig lítið í frammi í fyrri hálfleik, setti tvo slíka, þann seinni á lokasekúndu leikhlutans og Keflavík leiddi því fyrir lokabardagann, 46-49.

Miðað við hvernig leikuirnn hafði verið þá mátti ljóst þykja að barist yrði fram á síðustu sekúndu og við þá tilhugsun hreys grindvískum áhorfendum væntanlega hugur því hinu unga liði þeirra hefur gengið bölvanlega að loka jöfnum leikjum eftir áramót.  Þær stóðust hins vegar prófið að þessu sinni og kannski sem betur fer fyrir þær þá var leikurinn ekki í algerum járnum í lokin og Grindavík leiddi með nokkrum stigum en Keflavíkurstúlkum sem hittu einungis úr 23% skota sinna í leiknum, var fyrirmunað að skora í lokin og því varð sanngjarn sigur Grindavíkurkvenna staðreynd, 63-57.

Jordan Airess Reynolds var frábær í dag, leiddi lið sitt og skoraði þegar á þurfti að halda en hún var lang framlagshæst með 27 (24 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar).  Bríet sem hafði ekki verið á fjölinni sinni í fyrri hálfleik, steig upp í þeim seinni og endaði með 14 stig og hin franska Tania Pierre-Marie stóð fyrir sínu undir körfunni og skilaði 14 í framlag (12 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar).  Yfir höfuð var þetta þó sigur liðsheildarinnar en oft á tíðum er unun að fylgjast með þessu yngsta liði Dominosdeildar kvenna.

Hjá Keflavík var Daniela hlutskörpust og steig vel upp í seinni hálfleik en hún hafði haft sig lítið í frammi í þeim fyrri.  Hún endaði með 15 stig og tók 14 fráköst en skotnýting hennar eins og liðsfélaga hennar var döpur, 6/20.  Það hægðist á Kamillu í seinni hálfleik og bætti hún bara tveimur stigum í sarpinn og endaði með 12 stig en enginn önnur keflvísk komst yfir 10 stiga múrinn og þar lá kannski keflvíski hundurinn grafinn.

Með sigrinum kom Grindavík sér úr fallsætinu vegna betri innbyrðisstöðu gegn Breiðabliki en þessi lið mætast einmitt í næstu umferð en hún verður ekki leikin fyrr en 19. febrúar vegna bikarvikunnar. 

Við tapið datt Keflavík úr úrslitakeppnissæti en ætti að eiga möguleika á að fikra sig aftur upp töfluna í næstu umferð en þá mæta þær Snæfelli á heimavelli en á sama tíma mætir Skallagrímur Val á útivelli og Haukar mæta KR en eins og áður kom fram er Keflavík í blóðugri baráttu við fyrrnefndu liðin um sæti í Dominosdeildinni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -