spot_img
HomeFréttirGrindavík stöðvaði fimm leikja sigurgöngu KR

Grindavík stöðvaði fimm leikja sigurgöngu KR

Meiðslahrjáð Grindavíkurlið vann í kvöld sinn annan sigur í röð á toppliði í Iceland Express deildinni er KR-ingar lutu í parket í Röstinni. Í síðustu umferð urðu Njarðvíkingar fyrir barðinu á Friðriki Ragnarssyni og lærisveinum sem eru heldur betur að bíta frá sér þessa dagana. Toppliðabanar Grindavíkur lönduðu 84-67 sigri í leiknum með grimmum varnarleik en 67 stig Vesturbæinga er lægsta stigaskor liðsins í deildinni á þessu tímabili!
Þorleifur Ólafsson svaraði kallinu fyrir Grindvíkinga í kvöld þar sem Arnar Freyr Jónsson hóf leikinn í leikstjórnendastöðunni en lék ekkert í síðari hálfleik sökum meiðsla. Þorleifur tók við stjórninni í sóknarleik Grindavíkur og leysti hlutverkið af miklum sóma og lauk leik með 19 stig, 4 stolna bolta og 3 fráköst.
 
Pavel Ermolinski lék sinn fyrsta leik fyrir KR síðan hann kom á lánssamningi til félagsins frá Spáni. Pavel gekk illa að finna körfuna og gerði 3 stig í leiknum. Hann setti niður 1 af 5 teigskotum, brenndi af öllum þremur þriggja stiga skotum sínum en setti niður eitt víti. Honum gekk þó betur að finna liðsfélaga sína og var með 6 stoðsendingar. Þá lék Finnur Magnússon sinn fyrsta leik í nokkurn tíma en hann hefur verið að glíma við meiðsli og sást það glöggt í kvöld að Finnur er ekki enn farinn að ganga á öllum sílendrum en þess er örugglega skammt að bíða.
 
Brenton Birmingham var fjarverandi í Grindavíkurliðinu sökum meiðsla en þessi meiðslahryna virðist ekki há Grindvíkingum sem lögðu Njarðvíkinga í síðustu umferð og þá vantaði Þorleif Ólafsson í hópinn.
 
Heimamenn byrjuðu betur í Röstinni þar sem Ólafur Ólafsson kom gulum í 14-8 með þriggja stiga körfu og að sama skapi voru þeir Fannar Ólafsson og Darrell Flake að eiga skemmtilega glímu í teignum og báðir að setja niður góðar körfur. Heimamenn í Grindavík brugðu snemma á það ráð að skipta yfir í svæðisvörn og gekk það vel út upphafsleikhlutann því Grindavík leiddi 28-16 að honum loknum.
 
Brynjar Þór Björnsson snögghitnaði í liði KR í upphafi annars leikhluta og skoraði 8 stig í röð fyrir KR og minnkaði muninn í 30-24. Þegar síga tók á annan leikhluta færðust KR-ingar nær og það var eins og Grindvíkingar væru að verja forystu sína í stað þess að halda uppteknum hætti frá fyrsta leikhluta. Tommy Johnson átti líflegar rispur undir lok fyrri hálfleiks og kom KR yfir 41-42 með þriggja stiga körfu þegar 8 sekúndur voru til hálfleiks. Guðlaugur Eyjólfsson freistaði þess að koma Grindavík yfir fyrir leikhlé með þrist á hinum enda vallarins en hann geigaði og því leiddu KR-ingar í hálfleik.
 
Heimamenn leiddu eiginlega allan fyrri hálfleikinn og komust fljótt aftur yfir í þriðja leikhluta en liðin skiptust þá oft á forystunni. Varnarleikur beggja liða þéttist og á köflum í þriðja leikhluta voru heimamenn ansi óánægðir með dómgæsluna og töldu á sig hallað. Brynjar Þór Björnsson janfaði svo metin fyrir KR í 49-49 með þriggja stiga körfu en heimamenn náðu forystunni að nýju og leiddu 57-56 fyrir lokasprettinn.
 
Villuvandræði voru farin að gera vart við sig á báða bóga í fjórða leikhluta en hægt og bítandi efldust Grindvíkingar því trekk í trekk tókst þeim að brjóta á bak aftur sóknarleik KR-inga. Þegar rúmar sex mínútur voru eftir af leiknum fékk Pavel Ermolinski sína fimmtu villu í liði KR og varð frá að víkja. Þessi fyrsti leikur hans fyrir KR verður ekki hátt skrifaður þrátt fyrir að Pavel hafi vissulega sýnt góða takta í að skapa fyrir aðra leikmenn KR.
 
Þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka sauð upp úr á milli Tommy Johnson og Þorleifs Ólafssonar þar sem Tommy uppskar óíþróttamannslega villu fyrir að sýna Þorleifi ógnandi tilburði. Grindvíkingar tóku vítin sem fylgdu og breyttu stöðunni í 77-62 og Tommy hélt á bekkinn og kom ekki meira við sögu í leiknum.
 
KR-ingar áttu engin ráð við varnarleik Grindavíkur og þessar þrjár síðustu mínútur leiksins voru leikur kattarins að músinni. Lokatölur 84-67 eins og fyrr greinir og með sigrinum náðu Grindvíkingar innbyrðisviðureigninni gegn KR og hafa nú 20 stig í 6. sæti deildarinnar en KR er áfram á toppnum með 24 stig en Njarðvíkingar geta náð toppsætinu annað kvöld með sigri á Fjölni er liðin mætast í Ljónagryfjunni.
 
Þorleifur Ólafsson var stigahæstur í liði Grindavíkur með 19 stig en næstur honum voru þeir Darrell Flake og Ómar Sævarsson báðir með 15 stig. Ómar lék fantavel á báðum endum vallarins og Darrell var hættulegur í teignum en Ómar var auk stiganna 15 með 12 fráköst.
 
Hjá KR var Brynjar Þór Björnsson líflegastur með 16 stig og á eftir honum kom Semaj Inge með 13 stig þrátt fyrir afleita skotnýtingu. Pavel fann sig ekki í leiknum og þá náði Fannar Ólafsson ekki að fylgja eftir góðum fyrri hálfleik í þeim síðari.
 
Dómarar leiksins: Kristinn Óskarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson: Létu gabba sig nokkrum sinnum í að flauta þegar það átti ekki við en höfðu í heildina góða stjórn á miklum slag.
 
Texti: Jón Björn Ólafsson [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -