spot_img
HomeFréttirGrindavík sigldu sigri í höfn á lokasprettinum

Grindavík sigldu sigri í höfn á lokasprettinum

Ármann fékk Grindavík í heimsókn í Kennaraháskólann í kvöld í þriðja leiknum milli liðanna. Grindavík hafði unnið báða fyrri leikina nokkuð sannfærandi en mætti til leiks í kvöld án tveggja mínútuhæstu leikmanna sinna, Emblu Kristínardóttur og Ólöfu Rún Óladóttur. Leikurinn var jafn og spennandi framan af en undir lokin koðnuðu Ármenningar og Grindavík sigldi öruggum 50-71 sigri í höfn.
 

Leikurinn hófst með góðum fyrsta leikhluta þar sem að liðin skiptust á körfum og ljóst var að Ármenningar ætluðu sér ekkert að láta undan í þessari viðureign. Bæði lið byrjuðu af miklu offorsi og eftir fyrstu 10 mínúturnar var staðan 18-22, Grindavík í vil. Í öðrum leikhluta kulnuðu bæði liðin og fátt virtist ganga upp hjá þeim, en Grindavík skoraði aðeins 10 stig í leikhlutanum og Ármenningar aðeins þrjú stig þannig að staðan í hálfleik var 21-32, gestunum í vil.

Í seinni hálfleik snerist dæmið upphaflega við, en Ármann tóku sprett í þriðja leikhlutanum til að minnka muninn í fimm stig, 38-43 fyrir seinustu tíu mínúturnar. Svo virðist sem að þær hafi notað of mikla orku í að eltast við Grindavík vegna þess að þær komust ekki nær en þrjú stig áður en Ármenningar sprungu á limminu og þær gulklæddu breikkuðu bilið svo úr varð 21 stiga sigur, 50-71 fyrir Grindavík.
 

Þáttaskil

Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af lokafjórðungnum virtist sem að heimastúlkur hefðu ekki meiri orku og gæfust upp á sama tíma og gestirnir fóru loks almennilega í gang. Á sex mínútna kafla skoruðu Grindvíkingar 15 stig gegn tveimur stigum hjá Ármanni. Það reyndist vera meira en nóg til að tryggja útisigur Grindavíkurstelpnanna.
 

Hetjan

Angela Rodriguez var afgerandi í leiknum þrátt fyrir að vera nýstigin upp úr meiðslum og var einni stoðsendingu frá tvöfaldri þrennu! Hún skoraði 29 stig, tók 13 fráköst, gaf 9 stoðsendingar, stal 5 boltum og hitti m.a. sex þriggja stiga skot í átta tilraunum (75% þriggja stiga nýting).
 

Tölfræðin lýgur ekki

Tapaðir boltar voru það sem gerðu út af við Ármann í kvöld, en þær töpuðu 26 boltum, þar af 17 í stuldi hjá hinu liðinu. Þær skutu ekki mikið verr en Grindavík (32% vs. 35%), en þær fengu einfaldlega 19 færri skot utan af velli. Þar lá munurinn.
 

Kjarninn

Það bjuggust eflaust flestir við sigri Grindavíkur og svo fór sem fór, en Ármann sýndi í þessum leik að þær eiga fullt erindi í 1. deild kvenna og ef þær ná að eiga fleiri leiki þar sem þær spila vel í 30-40 mínútur þá gætu þær unnið leik áður en yfir lýkur. Grindavík eru mjög lemstraðar eftir að Embla er farin til Keflavíkur og fyrst Ólöf Rún er á leið í aðgerð á liðþófa, en með Angelu og ungu stelpurnar eru þær ennþá í 3. sæti í deildinni og eru enn í baráttunni um að komast upp í úrvalsdeild.
 

Tölfræði leiksins
 
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -