spot_img
HomeFréttirGrindavík öryggið uppmálað í Smáranum (Umfjöllun)

Grindavík öryggið uppmálað í Smáranum (Umfjöllun)

21:18
{mosimage}

(Brenton Birmingham ,,valsar“ í gegnum Blikavörnina)

Grindavík hafði öruggan 61-79 sigur á Breiðablik í sjöundu umferð Iceland Express deildar karla í kvöld. Grindvíkingar tóku forystuna snemma leiks og létu hana aldrei af hendi. Blikar gerðu eina heiðarlega tilraun til þess að saxa á forskot gestanna en virtust bensínlitlir allan leikinn og aldrei til þess líklegir að ógna forystu Grindvíkinga að einhverju ráði. Eftir sigurinn í kvöld er Grindavík komið á topp deildarinnar með 14 stig eins og KR sem á leik til góða gegn Njarðvíkingum annað kvöld þegar sjöundu umferð lýkur.

Nemanja Sovic opnaði leikinn í Smáranum er hann skoraði í teignum og fékk villu að auki en misnotaði vítaskotið svo heimamenn byrjuðu 2-0. Grindvíkingar pressuð strax í upphafi leiks á gestgjafa sína og nýliðar Breiðabliks áttu í mesta basli með að vinna úr pressunni og snögglega komust gestirnir í 7-17 með þriggja stiga körfu frá Arnari Frey Jónssyni. Breiðablik lét pressu Grindavíkur vinna af sér of marga bolta og raka of mikinn tíma af skotklukkunni svo heimamenn sættu sig lengi við erfið skot og ráðalausar sóknir.

Fljótlega skiptu Blikar í svæðisvörn og það getur reynst hættulegt gegn liði eins og Grindavík sem strax gegn svæðisvörninni sökktu þremur þristum í röð og þar var Guðlaugur Eyjólfsson að verki í tvígang nýkominn af tréverkinu. Maður á mann vörn Blika og svæðið var ekki að virka gegn sterkum Grindvíkingum heldur þurftu heimamenn að hrista af sér hræðsluna og mæta gestum sínum af krafti. Staðan 14-29 fyrir Grindvíkinga eftir fyrsta leikhluta og fátt í leik Blika sem benti til þess að þeir ættu sér viðreisnar von.

Blikar virtust jafna sig fljótlega í öðrum leikhluta og fóru að sækja meira að körfu gestanna. Grindvíkingar réðu engu að síður ferðinni í leiknum og Davíð Páll Hermannsson jók muninn í 19-38 með þriggja stiga körfu. Blikar virtust ekki líklegir til að komast inn í leikinn og tóku leikhlé í stöðunni 25-43 þegar um fimm mínútur voru til hálfleiks. Leikhléið hafði tilætluð áhrif því gestirnir skoruðu ekki stig síðustu fimm mínúturnar og staðan í hálfleik var 30-43 fyrir Grindavík. Blikar unnu því annan leikhluta 16-14 en höfðu misstigið sig illa gegn pressu Grindavíkur í fyrsta leikhluta og voru því ekki nægilega nærri gestunum.

{mosimage}

Breiðablik fór vel af stað í síðari hálfleik þar sem Halldór Örn Halldórsson var að berjast vel hjá heimamönnum. Daníel Guðni Guðmundsson átti fína rispu hjá grænum og gerði fimm stig í röð og minnkaði muninn í 41-49 en við það tóku Grindvíkingar leikhlé eftir 11-6 byrjun Blika. Svæðisvörn heimamanna hélt betur í síðari hálfleik en það var sem Blikar hefðu ekki úthald í að gera almennilegt áhlaup á forystu gestanna og því misstu þeir Grindvíkinga aftur fram úr sér. Guðlaugur Eyjólfsson skoraði langþráðan þrist fyrir Grindavík og breytti stöðunni í 41-52 og þá var sem gestirnir rönkuðu við sér og slitu sig aðeins frá Blikum og staðan 45-60 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Rúnar Ingi Erlingsson fékk snemma sína fimmtu villu hjá Blikum og varð frá að víkja en Grindvíkingar með sinn breiða hóp fengu fínt framlag frá öllum sínum mönnum sem komu af bekknum. Gestirnir gerðu vel að halda Blikum fjarri og sigldu í átt að öruggum 61-79 sigri og eru því enn sem skugginn af toppliði KR sem mætir Njarðvík í DHL-Höllinni annað kvöld.

Páll Axel Vilbergsson gerði 21 stig fyrir Grindvíkinga í kvöld og tók 5 fráköst en næstur honum kom nafni hans Kristinsson með 15 stig og 4 fráköst. Leikstjórnandinn Arnar Freyr Jónsson átti flottan dag í liði Grindavíkur og daðraði við þrennuna með 8 stig, 8 fráköst og 10 stoðsendingar. Guðlaugur Eyjólfsson setti niður þrjá þrista í leiknum eins og honum einum er lagið en Grindvíkingar léku án Helga Jónasar Guðfinnssonar sem hefur verið erlendis undanfarið sökum vinnu.

Hjá Breiðablik voru þeir Daníel Guðni Guðmundsson og Nemanja Sovic báðir með 18 stig en Sovic tók auk þess 17 fráköst. Halldór Halldórsson var með 9 stig og 8 fráköst en Blikar léku án Aðalsteins Pálssonar sem meiddist á dögunum í leik gegn Snæfellingum. Hann vonast til þess að vera aftur í röðum Blika einhvern tíman fyrir jól.

Byrjunarlið Grindavíkur:

Páll Kristinsson, Páll Axel Vilbergsson, Brenton Birmingham, Þorleifur Ólafsson og Arnar Freyr Jónsson.

Byrjunarlið Breiðabliks:
Rúnar Ingi Erlingsson, Daníel Guðmundsson, Hjalti Vilhjálmsson, Halldór Örn Halldórsson og Nemanja Sovic.

Tölfræði leiksins:
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0xNSZvX2xlYWc9MiZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0xNDk=

Texti: [email protected]
Myndir: Snorri Örn Arnaldsson

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -