spot_img
HomeFréttirGrindavík með þægilegan sigur á Njarðvík

Grindavík með þægilegan sigur á Njarðvík

 

Grindavík tók á móti Njarðvík í æfingaleik í Mustad-höllinni í kvöld en bæði lið undirbúa sig af kappi fyrir átökin sem hefjast 5. október.

 

 

Byrjunarliðin:

Grindavík – Rashad Whack, Jóhann Árni Ólafsson, Ólafur Ólafsson, Þorsteinn Finnbogason og Sigurður Gunnar Þorsteinsson. 

Dagur Kár í borgaralegum klæðnaði vegna agabanns skv. áreiðanlegum heimildum Lalla aðstoðarþjálfara.

 

Njarðvík –  Ragnar Friðriksson, Logi Gunnarsson, Maciej Baginski, Terrel Vinson og Ragnar Nathanlesson.

 

Óttarlegur haustbragur á leiknum í upphafi og heimamenn skutu nánast eingöngu frá 3-stiga línunni til að byrja með.  Staðan breyttist úr 9-2 fyrir heimamenn í 9-14 en þá rönkuðu þeir gulu við sér og 10 stig drituðust á græna.  Maciej smellti svo þristi og önnur tvö græn stig fylgdu en Kristófer Breki átti lokaorðið – fyrir utan 3-stiga línuna og staðan því 22-19 eftir opnunarfjórðunginn.  Eins og áður sagði, greinilega um æfingaleik að ræða og gæðin ekki mikil.  Bandaríkjamennirnir allt í lagi, Rashed Whack sem ég mun hér eftr kalla Whacko eða bara W, kominn með 5 stig og Vinson hjá Njarðvík með 7.  Raggi Nat mættur aftur til Íslands eins og Siggi Þorsteins, komið fagnandi drengir!

 

Grindavík byrjaði 2. leikhlutann  af krafti og Whacko setti fljótlega 4 stig og áður en varði var munurinn kominn upp í 2. stiga tölu, 33-23.  Njarðvíkingar ekki þekktir fyrir að leggjast flatir svo næstu mínútur voru þeirra og m.a. varði Raggi 2x skot frá Sigga Þorsteins og átti 2 flottar troðslur.  Ljóst að Raggi mun hjálpa þeim grænu mikið í vetur en á síðasta tímabili vantaði þeim hæðina inn í teig.  Stuttur hálfleikur tekinn og staðan 42-38 fyrir heimamenn.  Raggi Nat áberandi besti maðurinn hingað til með 12 stig, slatta af fráköstum og alla vega 3 varða bolta.  Hjá heimamönnum var Whacko kominn með 11 stig en hann fékk 2 villur undir lok fyrri hálfleiks og fannst undirrituðum seinni villan ansi ódýr…..

 

Áfram gakk og halda stiganum!

 

Whacko byrjaði á bekknum í seinni hálfleik og Hinrik, nýkominn að vestan tók stöðu hans og átti 4 fyrstu körfur gulra, 2 þeirra í formi stoðsendinga.  Liðin skiptust á körfum og allt í járnum.  Á leið sinni inn á völlinn skaut Þorsteinn Finnboga að undirrituðum, að gulir væru búnir að vera í stanslausum 3. vikna æfingum og því væru lappirnar pínu þungar, eitthvað til í því sennilega….    Whacko kom líka inn á og byrjaði á sama máta og hann endaði fyrri hálfleikinn – með villu og því kominn með 4 slíkar.  Njarðvíkingar tóku góða rispu í lokin og einungis munaði 1 stigi fyrir loka átökin, 65-64.  Stigahæstir eru títtnefndur W með 16 stig og Siggi Þorsteins með 12 og hjá gestunum eru Raggi nat með 17 stig  og Vinson með 15.

 

Bæði lið byrjuðu lokabardagann heit og setti Whaco fyrstu 7 stig heimamanna, greinilega hörku skorari þarna á ferðinni.  Allt í járnum og þegar lokahlutinn var nákvæmlega hálfnaður og var allt í járnum, 80-80.   Jóhann Árni smellti þrist í grillið á sínum gömlu félögum og Danni tók leikhlé, 85-82.  Eftir leikhléið var brotið á W í 3-stiga skoti og Danni mótmæli og uppskar tæknivillu að auki.  W setti ¾ og svo var fljótlega brotið á honum aftur og Danni ekki sáttur…..    Allt loft virtist farið úr gestunum við þetta og Grindavík sigldi tiltölulega þægilegum sigri í höfn, 99-87.

 

Nokkuð ljóst að gulir duttu í Kana-lukkupottinn ef mið er tekið af þessari fyrstu frammistöðu Whacko en kappinn lenti í gærmorgun.  Baneitruð skytta sem á pottþétt eftir að setja þau nokkur stigin í vetur.  Hann endaði með 30 stig, Siggi með 16 og Ingvi 13. 

 

Hjá Njarðvík var Raggi Nat með 19 og var mjög öflugur, Terrel Vinson 16 og Magic 14.  Ljóst að Njarðvíkingar verða með í baráttunni í vetur.

 

Ps.  Dagur ekkert í neinu agabanni, smá glens. Smávægileg meiðsli sem munu ekki stoppa kappann þegar alvaran byrjar.

 

Viðtöl:

 

Umfjöllun / Viðtöl: Sigurbjörn Daði Dagbjartsson

Fréttir
- Auglýsing -