Það var sannkallaður toppslagur á dagskrá í Iceland Express deild karla í kvöld, þegar Stjörnumenn tóku á móti Grindvíkingum á heimavelli sínum í Ásgarði. Fyrir leikinn voru Grindvíkingar efstir með 18 stig, en Stjörnumenn fylgdu fast á hæla þeirra með 16, og áttu Stjörnumenn möguleika á að stela toppsætinu af Grindavík með sigri.
Grindvíkingar komu mun skarpari til leiks í upphafi. Sóknarleikur heimamanna var álíka fjörlegur og kistulagning á meðan gestirnir náðu fljótlega 10 stiga forystu. Giordan Watson fór mikinn í liði Grindvíkinga og skoraði 14 stig í leikhlutanum og Grindvíkingar litu vel út á báðum endum vallarins. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 20-31, gestunum í vil, og Stjörnumenn virtust varla mættir.
Heimamenn mættu þó mun beittari í annan leikhluta. Þeir þéttu vörnina til muna og fyrstu fimm og hálfa mínútu fjórðungsins skoruðu Grindvíkingar einungis tvö stig. Kné fylgdi hins vegar ekki kviði í sóknarleiknum en Stjörnumenn náðu þó jafnt og rólega að minnka forskot gestanna í þrjú stig. Þá rönkuðu Grindvíkingar við sér og juku forskotið fyrir hálfleiksflautuna, en staðan í háfleik var 35-42, Grindavík í vil.
Þriðji leikhluti fer seint í sögubækurnar fyrir fallegan körfubolta. Sóknarvandræði heimamanna héldu áfram og var skotnýting þeirra á við áfengismagn í meðalrauðvíni. Gestirnir áttu líka í nokkrum vandræðum í sókninni en nú hafði slaknað talsvert á hinni öflugu vörn sem Stjarnan hafði sýnt í öðrum fjórðungi og hjálpaði það Grindvíkingum talsvert. Með versnandi vörn heimamanna tók Grindavík á skarið og hafði mjög þægilega og örugga 17 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 43-60.
Eftir þetta var í raun aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Þrátt fyrir pínu áhlaup Stjörnunnar í lokin sigldu gestirnir sigrinum örugglega í höfn og unnu öruggan 8 stiga sigur, 67-75.
Teitur Örlygsson var að vonum svekktur með leik sinna manna í kvöld. “ Þetta var slakt hjá okkur í kvöld. Mér fannst mínir menn gera of mikið fyrir sjálfa sig og ekki hugsa um að spila fyrir liðið. Grindavík þurfti allavega ekki að hafa mikið fyrir sigrinum, en þegar menn geta ekki gefið stoðsendingar og velja léleg skot fyrir sjálfa sig, þá vinna þeir ekki körfuboltaleiki”. Helgi Jónas Guðfinnsson var aftur á móti sáttur. “Mér fannst við berjast vel í kvöld eins og í bikarleiknum við KR, sem var leikur sem gat dottið báðum megin. Við sögðum bara áfram gakk, og það skilaði sér í kvöld”.
Stigahæstur heimamanna var Justin Shouse með 15 stig en hjá gestunum var Giordan Watson með 19 stig, en þó skoraði hann einungis fimm stig síðustu þrjá leikhlutana. Grindvíkingar eru því á toppi Iceland Express deildar karla að lokinni fyrri umferð deildarinnar.
Heildarskor:
Stjarnan: Justin Shouse 15/5 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 14/7 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 12/8 fráköst, Keith Cothran 11/5 fráköst/5 stolnir, Sigurjón Örn Lárusson 10/8 fráköst, Fannar Freyr Helgason 4, Guðjón Lárusson 1, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Aron Kárason 0, Dagur Kár Jónsson 0, Christopher Sófus Cannon 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0.
Grindavík: Giordan Watson 19/11 fráköst/11 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 15, J’Nathan Bullock 14/11 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 12/5 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/6 fráköst/3 varin skot, Þorleifur Ólafsson 6, Ólafur Ólafsson 2, Þorsteinn Finnbogason 0, Jón Axel Guðmundsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ármann Vilbergsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson