spot_img
HomeFréttirGrindavík hafði betur í baráttunni um Suðurströndina

Grindavík hafði betur í baráttunni um Suðurströndina

Grindavík mætti grönnum sínum af hinum enda Suðurstrandarvegarins, Þór frá Þorlákshöfn í ansi mikilvægum leik í 18. umferð Dominosdeildarinnar en liðin voru í 8. og 9. sæti deildarinnar fyrir leikinn, Þór einum sigri betri og höfðu unnið fyrri viðureignina með 4 stigum.  Sannkallaður 4. stiga leikur í gangi og spennustigið hátt, bæði inni á vellinum og í stúkunni, í raun úrslitakeppnisfeelingur í gangi.  Tilviljun eða ekki en um leið og formaður Sjómanna- og Vélstjórafélags Grindavíkur, Einar Hannes Harðarson mætir í stúkuna, þá lifnar hún við!

Grindvíkingar sem eru allt annað lið eftir komu Seth LeDay, stjórnuðu ferðinni til að byrja með og leiddu með 11 stigum í hálfleik, 50-39.  Stigaskor heimamanna dreifðist einkar jafnt og var enginn kominn yfir 10 stig en ansi margir daðrandi þar nærri.  Aginn líka mun meiri í sóknarleiknum.  Grindvíkingar beittu svæðisvörn um tíma á móti Stjörnunni í síðustu umferð og gafst hún vel og hélt Danni áfram að brydda upp á henni og áttu Þórsarar oft í mestu vandræðum með að leysa hana.  Þórsarar eru með hörkugóða leikmenn inn á milli og um leið og Grindavík slakaði eitthvað á klónni þá voru gestirnir komnir í skottið á þeim!

Grindavík byrjaði betur í seinni hálfleik og voru komnir með 16 stiga forskot og virtust ætla stynga af en lærisveinar Friðriks Inga eru engin lömb að leika sér við og þeir áttu lokasprettinn og 12 stigum munaði fyrir 4. leikhlutann, 75-63.

Lokaleikhlutinn var í raun eign heimamanna og þegar Seth LeDay tróð “ala Rodney Dobart á móti Keflavík forðum” þá virtist þakið af Mustad-höllinni hreinlega ætla rifna af!  Ef Seth fær ekki kassa af Ripped fyrir næsta leik þá skal ég hundur heita! Munurinn fór þarna upp í 15 stig og leikurinn allt að því búinn.  Munurinn fór upp í 19 stig og var í raun bara spurning um hversu stór sigurinn yrði.  Lokatölur 95-78.

Það er erfitt að taka einhvern einn út fyrir sviga hjá Grindavík því sjö leikmenn skiluðu 10+ í framlag en ef mið er tekið af þeim sem var hæstur og veita á MVP út frá því, þá hreppir Seth hnossið.  Ef það var einhver vafi, þá fær hann nafnbótina út á hina stórkostlegu troðslu sína!  Ólafur sýndi loks hvað hann getur en hann skartaði forláta hormottu og spurning hvort hún sé komin til að vera.  Markverðast er þó að geta Ingva Þórs sem átti sinn langbesta leik í vetur en hann hefur legið undir ámælum fyrir óskynsamlegt skotval oft á tíðum.  Það var varla að eitt skot hans hafi verið illa ígrundað en fyrir utan að vera frábær skytta þá er hann ótrúlega sterkur í að keyra upp að körfunni.  Að mati undirritaðs þá á Ingvi að halda sig við einn skotstíl fyrir utan 3-stiga línuna en nýting hans úr “jump-skotum” fyrir utan línuna er ansi döpur en þó setti hann eitt slíkt niður í kvöld, líklega úr sinni einu tilraun, ég á kannski bara að rata sjálfur út…..  en yfir höfuð, þá hefur Ingvi ekki verið að hitta vel úr þessum erfiðu “jump-fade-away”-þristum sínum.   Það sem var markverðast hjá Ingva í kvöld voru hinar 11 stoðsendingar sem hann sendi!  Einfaldlega frábær leikmaður þegar hann spilar svona!

Grindavík heldur betur að velja tímapunktinn til að fá vindinn í seglin en þeirra bíður bikarvika í næstu viku þar sem andstæðingurinn í undanúrslitum verður Fjölnir.

Þórsarar komust einhvern veginn aldrei í takt við þennan mikilvæga leik en hver ástæða þess er ætla ég ekki að fjölyrða um.  Þeir mættu einfaldlega ofjörlum sínum.  Marko Bakovic var stiga- og framlagshæstur (19-25) og Jerome Fink setti 14 stig og skilaði 17 framlagspunktum.  Betur má ef duga skal og Þórsara bíður ansi langt frí þar sem þeir taka ekki þátt í bikarvikunni og fá því góðan tíma til að skerpa á leik sínum fyrir lokaátökin.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -