spot_img
HomeFréttirGott A-landslið verður ekki til úr veikum grunni

Gott A-landslið verður ekki til úr veikum grunni

Við erum öll svekkt eftir landsleiki sumarsins. Að við skulum aldrei ætla að fá smá heppni sem gæti lyft okkur uppá næsta pall og gefið okkur tækifæri á fleiri leikjum og skemmtilegheitum. Það var hins vegar mjög ánægjulegt að fá að fylgjast með Jóni Arnóri sem sýndi okkur ACB-level af körfubolta og það af hverju hann leikur í næst sterkustu deild í heimi. En það er auðvitað augljóst að okkur vantar fleiri leikmenn sem leika á hærra leveli. Sænska deildin er ágæt og sterkari en sú íslenska en hins vegar eru trúlega 30 deildir í Evrópu betri en sú sænska. Og við þurfum klárlega fleiri leikmenn sem eru að klifra þann stiga. Ég er nátturulega ekki að gera lítið úr okkar leikmönnum í Svíþjóð sem eru flottir og góðir leikmenn.
 
 
En við viljum betra landslið og í því samhengi þurfum við að setja okkur markmið og mynda okkur trúverðuga stefnu um hvernig við getum náð þeim.
 
Ég held að við séum að stíga gott skref í deildinni okkar núna með því að lengja tímabilið og fækka erlendum leikmönnum. Það mun gefa okkar mönnum meira svigrúm og meiri ábyrgð. Mitt mat er að næsta skref sé að fjölga leikjum og lengja tímabilið en frekar. En það ætti að vera markmið eftir 2-3ár.
Hins vegar er grunnurinn að góðu landsliði gott yngri flokka starf og gott afreksprógram fyrir yngri landslið. Ég held að flest félögin séu að vinna ágætt starf, en hins vegar höfum við ekki haldið úti nægjanlega góðu afreksprógrami fyrir yngri landsliðin. Og því miður langt frá því. Það er algjörlega óviðunandi og mér með öllu óskiljanleg stefna.
 
Núna þá erum við bara að senda yngri landsliðin á Norðurlandamót. Það er eins og Njarðvík mundi ákveða að senda sín lið bara í Reykjanesmótið! Hin landsliðin nota NL mótið sem fyrsta undirbúning, æfa svo á fullu allt sumarið fyrir Evrópukeppni í júlí-ágúst. Þar eru liðin í 2 vikur og spila 8-10 topp leiki. Það er aðalmót fyrir öll alvöru landslið. Núna í sumar þá sendu 44 af 47 körfuboltaþjóðum lið sín í keppni yngri landsliða? Já við erum ein af 3 körfuboltaþjóðum í Evrópu sem erum ekki með neitt landslið í Evrópukeppni yngri landsliða! Ætlar einhver í húsinu að segja mér að okkur sé alvara með að byggja upp betra landslið? Það getur vel verið að hægt sé að byggja upp gott úrvalsdeildarlið tímabundið með ekkert yngri flokka starf, ef allir leikmenn eru aðkeyptir og útlendingakvótinn er ótakmarkaður. En það getur enginn sagt mér að gott A-landslið verði til úr veikum grunni. Það er bara ekki hægt.
 
Við sem stundum trjárækt á sumrin vitum að fallegur trjálundur verður ekki til að sjálfu sér. Það þarf að finna honum góðan stað, sá í jarðveginn, vökva og hlúa að hverri hríslu í fjölda ára. Það mun ekki duga að vera með eina stutta vökvun í maí. Og viti menn að afraksturinn verður nákvæmlega eins góður og sú vinna sem við höfum lagt í verkið.
 
Með körfuboltakveðju,
Jón Arnar Ingvarsson 
Fréttir
- Auglýsing -