spot_img
HomeFréttirGood Angels komnar með farseðilinn til Rússlands

Good Angels komnar með farseðilinn til Rússlands

Landsliðskonan Helena Sverrisdóttir heldur áfram að pára nafn sitt í sögubækurnar því í kvöld komst hún ásamt Good Angels inn í 8-liða úrslit meistaradeildarinnar og er fyrst íslenskra kvenna sem nær þessum magnaða árangri. Good Angels mættu til Spánar í kvöld og lögðu Perfumerias Avenida 64-74 og unnu þar með einvígið 2-0.
 
Sjálf 8-liða úrslit meistaradeildarinnar fara fram í Ekateringburg í Rússlandi í næsta mánuði. Helena lék í alls 14 mínútur í kvöld en náði ekki að skora en var með einn stolinn bolta. Stigahæst í liði Good Angels var Alexandria Quigley með 23 stig.
 
Karfan.is náði stuttu tali af Helenu í kvöld og sagði hún liðið afar stolt af árangrinum. ,,Aðalmarkmiðinu er náð, hér eftir verðum við svona ,,underdogs” í keppninni þannig að það er aldrei að vita hvað gerist. Við erum mjög stoltar af þessum árangri og spenntar fyrir framhaldinu. Við vitum ekki alveg hvað bíður okkar í Rússlandi en ég held að um leið og við áttum okkur á þessu öllu saman þá förum við að setja okkur ný markmið og þá getur allt gerst,” sagði Helena en Good Angels byrjuðu leikinn í kvöld á Spáni afar vel gegn Avenida sem var dyggilega stutt af heimafólki.
 
,,Við skoruðum 51 stig í fyrri hálfleik sem er mjög gott, áhorfendur voru mjög háværir en við héldum hausnum þó svo þær hafi átt nokkra sénsa á því að ná okkur. Sem betur fer vorum við að spila nógu vel til að ná sigrinum.”
  
Fréttir
- Auglýsing -