spot_img
HomeFréttirGóður fyrsti leikhluti lagði grunn að Stjörnusigri

Góður fyrsti leikhluti lagði grunn að Stjörnusigri

Stjarnan sigraði FSu þegar liðin áttust við í Iðu í Domino's deild karla í kvöld. Garðbæingar hafa byrjað nýja árið vel og sigruðu KR úti og Tindastól heima og eftir leikinn í kvöld sitja þeir í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig. Selfyssingar hófu árið á sigri á Grindavík en náðu ekki að fylgja góðri byrjun eftir því tap var niðurstaðan þegar þeir spiluðu á móti ÍR í Hertz Hellinum í síðustu viku. Eftir leikinn í kvöld vermir FSu 11. sæti deildarinnar og berst því fyrir áframhaldandi veru sinni í deildinni á næsta tímabili.

Garðbæingar mættu vel stemmdir til leiks í Iðu og náðu fljótt 10 stiga forystu. Selfyssingar nýttu skot sín illa og töpuðu boltanum í tvígang strax í upphafi leiks. Bið þeirra eftir fyrstu stigunum var nokkuð löng en þau setti Chris Woods þegar liðlega fjórar mínútur voru liðnar af leiknum og staðan orðin 0-12 fyrir gestina. Skotnýting heimamanna skánaði þegar leið á leikhlutann, en tveir þristar frá Magnúsi Bjarka í lok hans tryggðu Stjörnunni 15 stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 10-25.

Það var allt annað heimalið sem mætti til leiks í öðrum leikhluta og voru Selfyssingar mun ákveðnara í sínum aðgerðum. Hvorki gekk né rak í sókninni hjá gestunum í upphafi leikhlutans og 14 stig í röð frá FSu minnkaði forystu Stjörnunnar í þrjú stig, 24-27. Garðbæingar hrukku þá í gang, þeir juku forskotið jafnt og þétt og leiddu í hálfleik með 11 stigum, 35-46. Justin Shouse fór mikinn fyrir Stjörnuna á þessum kafla og lét skotunum rigna fyrir utan þriggja stiga línuna.  

Hlynur Hreinsson opnaði seinni hálfleik með að setja niður þrjú stig fyrir FSu. Illa gekk hjá báðum liðum í sóknarleiknum, léleg skotnýtin og tapaðir boltar einkenndu fyrstu mínútur seinni hálfleiks. Heimamenn voru ákveðnir í að lúta ekki í lægra haldið án baráttu og minnkuðu muninn í tvö stig rétt eftir miðjan þriðja leikhluta í stöðunni 57-59. Stjarnan var þó sterkari aðilinn á lokasprettinum og landaði að lokum 13 stiga sigri í kaflaskiptum leik, 81-94. 

Justin Shouse fór mikinn í liði Stjörnunnar, skoraði 33 stig og gaf 5 stoðsendingar. Tómas Heiðar Tómasson bætti við 20 stigum, Sæmundur Valdimarsson 11 stigum og 9 fráköstum og Tómas Þórður Hilmarsson setti 9 stig og tók 12 fráköst. Hjá FSu var Christopher Woods með 30 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar, 42 framlagsstig í heildina. Hlynur Hreinsson bætti við 19 stigum og tók 5 fráköst, Cristopher Caird skoraði 10 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og Gunnar Ingi Harðarson skoraði 9 stig.

FSu 81 – 94 Stjarnan (10-25, 25-21, 26-21, 20-27)

Stigaskor FSu: Christopher Woods 30 stig/17 fráköst/6 stoðsendingar, Hlynur Hreinsson 19 stig/5 fráköst, Cristopher Caird 10 stig/7 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnar Ingi Harðarson 9 stig, Bjarni Geir Gunnarsson 5 stig, Geir Elías Úlfur Helgason 3 stig, Þórarinn Friðriksson 3 stig, Arnþór Tryggvason 2 stig, Hilmir Ægir Ómarsson 0 stig, Svavar Ingi Stefánsson 0 stig, Maciej Klimaszewski 0 stig.

Stigaskor Stjörnunnar: Justin Shouse 33 stig/5 stoðsendingar, Tómas Heiðar Tómasson 20 stig, Sæmundur Valdimarsson 11 stig/9 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 9 stig/12 fráköst, Al'lonzo Coleman 8 stig/14 fráköst/7 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 7 stig/5 stoðsendingar, Magnús Bjarki Guðmundsson 6 stig, Christopher Sófus Cannon 0 stig, Óskar Þór Þorsteinsson 0 stig, Brynjar Magnús Friðriksson 0 stig.

Myndasafn (Bára Dröfn)
 

Fréttir
- Auglýsing -