spot_img
HomeFréttirGóð stig í góðum sigri í Stykkishólmi (Umfjöllun)

Góð stig í góðum sigri í Stykkishólmi (Umfjöllun)

 
Grindavíkurstúlkur mættu í Hólminn til að sækja heim Snæfellsstúlkur en bæði lið voru búin að taka sinn sigurinn hvor í deildinni og hörkubarátta liðanna að grípa hvert gefið stig. Sara Mjöll Magnúsdóttir var ekki í liði Snæfells vegna veikinda og í lið Grindavíkur vantaði Jeanne Lois Figerroa Sicat og Rakel Evu Eiríksdóttur. Snæfell sigraði leikinn 65-51 eftir að hafa rúllað á jafnan leik í síðari hálfleik og tekið völdin með Sade, Berglindi og Björgu í farabroddi sem þáðu góð stig í góðum sigri.
Leikurinn byrjaði varfærnislega og eiginlega um of þar sem Grindavík skoraði fyrstu tvö stigin eftir 2 mín leik og Snæfell um einni og hálfri mínútu síðar staðan var 3-4 fyrir Grindavík eftir 5 mín og mikið um skot en lítið um skor. Staðan eftir fyrsta hluta var 10-12 fyrir Grindavík og enginn hágæði í gangi.
 
Allt var í járnum í öðrum hluta og liðin skiptust á að skora. Eftir að hafa verið jafnt og Grindavík yfirleitt 2 stigum yfir þá komnust Snæfell yfir 19-18 og svo 22-18 með þristum frá Helgu Hjördísi og Björgu Guðrúnu. Ingibjörg Ellertsdóttir jafnaði svo 24-24 af vítalínunni og Agnija Reka setti niður tvö á síðustu sekúndunum 24-26 í fyrri hálfleik. Hjá Snæfelli var Sade Logan með 9 stig og Berglind Gunnars 7 stig. Hjá Grindavík var Agnija Reke með 9 stig og 7 fráköst og Alexandra Hauksdóttir 6 stig.
 
Síðari hálfleikur hélt áfram að vera jafn og hvorugt liðið að taka af skarið í spennandi leik en lítil hittni hjá liðunum sem voru ekki að nýta skotin vel og sóknir yfirleitt. Snæfell komst yfir 32-31 eftir tæknivillu á Hörpu Hallgríms hjá Grindavík. Snæfell tók á þessum kafla smá sprett sem kom þeim í 39-31 með Berglindi og Sade í oddaflugi og þegar Hrafnhildur setti þrist sem kom Snæfelli í 42-32 þá var stemmingin heldur betur heimastúlkum í hag. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 44-35 fyrir Snæfell sem tók þriðja hluta 20-9.
 
Grindavík bættu sinn leik og skreið aðeins nær en voru að missa boltann í skrefi og nettum klaufagangi til að komast almennilega aftur inn í leikinn en Berglind Gunnars hélt Snæfelli við efnið ásamt Björg Einars sem setti stórar körfur á góðum tíma. Snæfell hélt forystunni út leikinn og sigraði 65-51 eftir að Helga Hjördís setti þrist í lokin.
 
Stig og tölfræði leikmanna.
 
Snæfell:
Sade Logan 18/5 frák/4 stoðs/7 stolnir. Berglind Gunnarsdóttir 17/3 frák/3 stoðs. Björg Guðrún 12/4 stoðs/5 stolnir. Helga Hjördís 10/4 frák. Inga Muciniece 4/13 frák/4 stoðs. Hrafnhildur Sævarsdóttir 3 stig. Hildur Björg 1/5 frák/3 stoðs. Alda Leif, Ellen Alfa, Aníta Sæþórsdóttir og Rósa Kristín skoruðu ekki.
 
Grindavík:
Agnija Reke 13/14 frák/3 stolnir. Alexandra Marý 12/4 frák. Helga Hallgrímsdóttir 12/6 frák/3 stoðs. Ingibjörg Yrsa 7/5 frák. Harpa Hallgrímsdóttir 4/5 frák. Berglind Anna 2/ 4 frák. Mary Sicat 1 stig. Lilja Ósk, Eyrún Ösp, Jenný Ósk og Alda Kristinsdóttir skoruðu ekki í leiknum.
 
Dómarar leiksins: Einar Þór Skarphéðinsson og Jóhann Gunnar Guðmundsson.
 
 
Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -