spot_img
HomeFréttirGnúpverjar fengu gott í derhúfuna á heimavelli

Gnúpverjar fengu gott í derhúfuna á heimavelli

Seinasti leikur í 1. deild karla fyrir jól var þreyttur á þriðja í aðventunni milli Gnúpverja og FSu. Fyrir leikinn voru Gnúpverjar í sjöunda sæti deildarinnar og FSu í því áttunda og bæði lið voru að vonast efitr því að fá sigurleik í derhúfuna frá jólasveininum. Gnúpverjar voru betri í leiknum og uppskáru sigur, 99-87
 

Heimamenn komu einbeittir til leiks og hreyfingar þeirra í sókninni voru til fyrirmyndar, enda komu fyrstu 18 stig liðsins úr sniðskotum (rúmur helmingur þeirra eftir gott cut og betri sendingu). Á sama tíma virtist vörn Selfyssinga hriplek og þó að þeir næðu að halda í við Gnúpverja þá þurftu þeir að hafa miklu meira fyrir öllum sóknaraðgerðum sínum.

Það glitti þó í jákvæða hluti hjá gestunum, en þeir voru að hitta ágætlega í fyrstu og illa gékk að hemja miðherja FSu, Maciek Klimaszewski, inni í teig. Staðan í lok fyrsta var 28-21, Gnúpverjum í vil, og ljóst að um skotsýningu gæti verið að ræða í leiknum. Hátt stigaskor hélt áfram í öðrum leikhluta og bæði lið héldu áfram að fá körfur gegn meðalmennskuvörn hins liðsins. Þó voru Gnúpverjar áfram beittari og liðin skildu í hálfleik í stöðunni 57-44.

FSu byrjuðu seinni hálfleikinn ekkert mikið betur en þann fyrri og gátu lítið gert til að halda aftur af sóknarbylgju "nágranna" sinna úr Gnúpverjahreppi. Þrátt fyrir einstaka áhlaup sem löguðu stöðuna aðeins þá héldu heimamenn alltaf aftur af FSu-mönnum og höfðu alltaf einhver svör við gestunum. Undir lokin gátu Selfyssingar aðeins lagað stöðuna en það var ekki nóg og gerðist of seint. Lokastaðan varð 99-87 í sigri Gnúpverja þar sem allir komu inn á, jafnvel þjálfarinn sjálfur fyrir lokavörnina.
 

Þáttaskil

Það var í raun ekki um nein þáttaskil að ræða í leiknum, Gnúpverjar byrjuðu leikinn betur og juku muninn jafnt og þétt allt fram í fjórða leikhluta. Þá tóku FSu-menn smá áhlaup en það reyndist vera of lítið og, eins og áður sagði, of seint.
 

Góð liðsheild í kvöld

Að vanda var Everage Lee Richardson mjög tiltækur fyrir heimaliðið (43 stig, 6 fráköst, 8 stoðsendingar og 11 fiskaðar villur) en allir í Gnúpverjum eigið skilið sérstakt hrós fyrir það að spila vel saman á móti liði sem hefði alveg getað farið með sigur af hólmi ef heimamenn hefðu ekki mætt í byrjun leiks eins og þeir hafa stundum átt til í vetur. Liðið var með 120 framlagsstig í leiknum og fyrir utan Everage voru þrír aðrir leikmenn sem skiluðu 10+ framlagsstigum, þeir Atli Örn Gunnarsson (22 stig, 8 fráköst, 71% skotnýting og 25 í framlag), Hákon Már Bjarnason (6 stig, 9 fráköst, 8 stoðsendingar og 18 í framlag) og Ægir Hreinn Bjarnason (12 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar, engir tapaðir boltar og 14 í framlag).
 

Tölfræðin lýgur ekki

Betri skotnýting og fleiri fráköst skiluðu sér í góðum sigri hjá Gnúpverjum í kvöld, en ástæðan fyrir góðu skotnýtingunni var hve mörg lay-up þeir fengu. Gnúpverjar skoruðu 58 stig inn í teig gegn 40 hjá FSu og skoruðu líka 8 stig úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik. FSu skutu ekkert illa en þeir nýttu færri skot og fengu færri víti en Gnúpverjar hittu úr í leiknum (Gnúp: 21/35 í vítum vs. FSu: 12/18).
 

Kjarninn

Gnúpverjar eru sem stendur að halda ágætum dampi og eru að vinna leikina sem að þeir eiga að vinna, eins og þennan. Þeir verða hins vegar að herða sig og stela nokkrum leikjum hér og þar af liðunum ofar í deildinni ef að þeir vilja reyna að lauma sér inn í úrslitakeppnina. Miðað við hvernig þeir spiluðu í kvöld og framlag annarra leikmanna en Everage þá gætu þeir alveg gert það. FSu eru aftur á móti í heldur vonlausri stöðu og verða að reyna finna gleðina í að keppa saman og spila sem lið yfir hátíðarnar. Það dugar ekkert að mæta óbreyttir eftir áramót, nú ríður á að liðið finni sig og að menn fari að spila fyrir hvern annan.
 

Tölfræði leiksins
Viðtöl eftir leikinn:

 

 
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -