spot_img
HomeFréttirGiannis lausir Bucks tryggðu sér sæti í úrslitum í fyrsta skipti síðan...

Giannis lausir Bucks tryggðu sér sæti í úrslitum í fyrsta skipti síðan 1974 – Mæta Suns í fyrsta leik aðfaranótt miðvikudags

Milwaukee Bucks tryggðu sér í nótt sæti í lokaúrslitum NBA deildarinnar með sigri á Atlanta Hawks í sjötta leik liðanna í úrslitum Austurstrandarinnar, 118-107. Í úrslitunum munu Bucks mæta liði Phoenix Suns, sem á dögunum lögðu LA Clippers í úrslitum Vesturstrandarinnar.

Atkvæðamestur fyrir Bucks í leik næturinnar var Khris Middleton með 32 stig og 7 stoðsendingar. Fyrir Hawks var það Bogdan Bogdanovic sem dró vagninn með 20 stigum og 3 stoðsendingum.

https://www.youtube.com/watch?v=LLigNSe-hIM

Bucks eru nú komnir í úrslitin í fyrsta skipti síðan árið 1974, en það er annað tveggja skipta sem þeir hafa farið í úrslitin áður. Í fyrstu ferðinni árið 1971 unnu þeir eina titil félagsins. Líkt og Bucks höfðu Suns í tvígang áður komist í úrslit, 1976, þar sem þeir töpuðu fyrir Boston Celtics og 1993, þar sem að Charles Barkley og félagar þurftu að láta í minni pokann fyrir Michael Jordan og Chicago Bulls.

Bucks hafa verið án stjörnuleikmanns síns Giannis Antetokounmpo í síðustu leikjum eftir að hann meiddist á hnéi og ekki er víst með þátttöku hans í úrslitaseríunni. Leið Suns að titlinum því áfram talin einkar auðveld, þar sem að áður fengu þeir að mæta meisturum Los Angeles Lakers að mestu án LeBron James og Anthony Davis í fyrstu umferð, Jamal Murray lausum Denver Nuggets í annarri umferð og LA Clippers án Kawhi Leonard í úrslitum Vesturstrandarinnar.

Fyrsti leikur lokaúrslitanna er aðfaranótt miðvikudags kl. 01:00.

Fréttir
- Auglýsing -