spot_img
HomeFréttirGert að hvíla með rifið milta

Gert að hvíla með rifið milta

 
Fremsta körfuknattleikskona Íslands, Helena Sverrisdóttir, er nú í strangri hvíld samkvæmt læknisráði en á dögunum fékk hún einkirningasótt og varð í ofanálag fyrir því óhappi að rífa í sér miltað en það gerist í einu af hverju 1000 tilfellum að öllu jöfnu. Vægast sagt óheppilegur tími þar sem Helena hefur leik á næsta tímabili í atvinnumennsku með liði sínu í Slóvakíu, Good Angels Kosice.
,,Ég er bara í strangri hvíld og má lítið sem ekkert gera,“ sagði Helena sem á síðasta tímabili lauk sínum ferli hjá bandaríska háskólanum TCU og kvaddi skólann þar sem einhver dáðasti íþróttamaður skólans.
 
,,Ég reif víst miltað fyrir löngu síðan en var að auka og auka æfingaálagið og verkurinn var alltaf til staðar. Ég hélt að hann myndi bara fara en síðan var þetta orðið ansi slæmt svo ég kíkti til læknis,“ sagði Helena sem vonar að hvíldin þurfi ekki að vara mikið lengur.
 
,,Ég hitti lækni 22. júní og þá verða myndir teknar aftur en líklegast má ég byrja aftur um miðjan júlí,“ sagði Helena en forsvarsmenn Good Angels í Slóvakíu hafa þegar fengið vitneskju um stöðu mála hjá Helenu og ætla að vinna í meiðslunum með henni svo hún nái fyrra formi eins fljótt og auðið er.
 
Fréttir
- Auglýsing -