Aðra umferðina í röð fara 12 brakandi ferskar flöskur af Gatorade í Skagafjörðinn en Karfan.is hefur valið Þröst Leó Jóhannsson sem Gatorade-leikmann níundu umferðar í Iceland Express deild karla. Þröstur fór mikinn í sigri Stólanna gegn Þór í Icelandic Glacial höllinni, jafnt í vörn og sókn.
Með sigrinum er Tindastóll í 9. sæti deildarinnar en liðið hefur unnið síðustu fjóra deildarleiki sína í röð og ekkert annað lið í deildinni á jafn langan sigurkafla í augnablikinu. Þröstur gerði 18 stig í leiknum gegn Þór þar sem 4 af 5 þristum rötuðu rétta leið og þá var hann einnig með 5 fráköst, 3 stoðsendingar og tvo stolna bolta en varnarhlutverkið var einnig í toppstandi þar sem hann pakkaði saman Mike Ringgold sem skoraði aðeins 4 stig í leiknum.
Þröstur verður á ferðinni um hátíðarnar, Akureyri á aðfangadag og inn í dagskránna koma líka heimabærinn Keflavík og Skagafjörðurinn að sjálfsögðu svo þeir verða ófáir kílómetrarnir sem liggja að baki hjá Þresti eftir þetta jólafrí, s.s. hver annar dagur hjá leikmanni Tindastóls en Stólarnir eru ekki þekktir fyrir að barma sér yfir smá ferðalögum.