spot_img
HomeFréttirGaf Lottomatica tóninn og trúna

Gaf Lottomatica tóninn og trúna

9:00

{mosimage}

Nú fer að líða að lokum birtinga okkar á skrifum Óskars Ófeigs og Sigurðar Elvars sem voru í Róm. Hér kemur pistil Óskars Ófeigs eftir leik 4 sem Roma vann. Þetta var í Fréttablaðinu miðvikudaginn 11. júní.

Jón Arnór Stefánsson og félagar í Lottomatica Roma urðu fyrstir til þess að vinna Montepaschi  Siena í úrslitakeppninni þegar þeir unnu öruggan sigur, 84-70, á heimavelli sínum í  PalaLottomatica í gærkvöldi.

Jón Arnór gaf sínu liði tóninn og trúna með frábærri byrjun en hann  skoraði öll sjö stigin sín í fyrsta leikhluta og stal auk þess 5 boltum og tók 3 fráköst á 26  mínútum. Baráttan og hungrið í sigur var þó hans meginframlag til leiksins í gær og átti stóran þátt í frábærum sigri.

„Spennustigið hjá okkur var rétt í kvöld. Við vorum afslappaðir og mun afslappaðri en í hinum leikjunum því öll pressan var á þeim. Við komum inn í þennan leik með  því hugarfari að láta reyna á þetta og berjast og spennustigið var jafnt og gott hjá okkur. Það var  samt vörnin sem skilaði þessum sigri því varnartaktíkin var ofsalega góð hjá okkur,“ sagði Jón  Arnór og bætti við: „Ég fann mig vel í kvöld og svona hefur mér liðið mestallt tímabilið. Það er gott að vera kominn með þessa tilfinningu aftur. Þessir tveir síðustu leikir hafa verið mjög góðir fyrir mig og sjálfstraustið,“ sagði Jón Arnór, sem hefur skorað 15 stig í síðustu tveimur leikjum eftir að hafa skorað 8 stig í fyrstu tveimur leikjunum í Siena.

Jón Arnór var aftur í byrjunarliðinu  og byrjaði aftur á Mið-Afríkumanninum Romain Sato. Það var greinilega að dagsskipunin hjá  Siena var að fara inn á Sato í upphafi leiks en Jón Arnór stoppaði hann þrisvar í fyrstu tveimur sóknunum og skoraði síðan fimm stig á fyrstu þremur mínútunum, öll úr hraðaupphlaupum. Jón Arnór át Sato hreinlega og eftir fimm mínútur var Sato skipt útaf. Jón Arnór fékk síðan mikið klapp þegar hann fékk sína fyrstu hvíld með 5 stig og 2 stolna bolta á fyrstu 7 mínútunum.

Jón Arnór byrjaði svo annan leikhluta og gætti þá Litháans Rimantas Kaukenas. Góð vörn Jóns þvingaði strax tapaðan bolta og skoraði hann síðan í framhaldinu körfu úr hraðaupphlaupi og  fékk víti að auki. Vítið fór reyndar forgörðum en Jón Arnór var orðinn langstigahæstur í  Rómarliðinu með sjö stig.

Jón Arnór settist á bekkinn þegar fjórar og hálf mínúta voru liðnar. Lottomatica lenti í kjölfarið undir en skoraði fjögur stig í röð og komst aftur yfir skömmu eftir að Jón Arnór kom aftur inn í leikinn. Staðan var síðan jöfn, 39-39, þegar hálfleiksflautið gall.  

Lottomatica-liðið hitti hins vegar mjög illa úr þriggja stiga körfum og það var aðeins Jón Arnór sem hitti úr þriggja stiga skoti í fyrri hálfleik en ekkert átta skotanna sem aðrir leikmenn tóku rötuðu í körfuna.

Jón Arnór fékk nú að byrja seinni hálfleikinn og Jasmin Repesa gerði ekki sömu mistök og í síðasta leik. Jón Arnór stal boltanum eftir aðeins tuttugu sekúndur, fiskaði villu strax í kjölfarið og Roma komst síðan yfir í sókninni á eftir. Gott frákast og góð ákvörðun Jóns í næstu sókn á eftir skilaði sér í opnu þriggja stiga skoti sem Hawkins setti niður og kom Lottomatica fimm stigum yfir, 44-39. Jón Arnór náði síðan að stela fimmta boltanum sínum í leiknum áður en hann fékk aftur hvíld. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 59-56 fyrir Lottomatica.

Ibrahim Jaaber átti flotta rispu í upphafi fjórða leikhluta og eftir níu stig í röð hjá honum var Lottomatica komið tíu stigum yfir, 68-58. Jón Arnór sat á bekknum á meðan liðið náði þessum frábæra kafla en með hverri körfu jókst stemningin og stuðningurinn við Lottomatica-liðið. Það gekk hreinlega allt upp hjá Rómarliðinu og það náði í kjölfarið þrettán stiga forskoti. Munurinn var 9 stig þegar Jón Arnór kom aftur inn í leikinn þegar 4:40 voru eftir. Jón Arnór kom yfirvegun inn í liðið á þessum tíma og Lottomatica stýrði skútunni heim og vann flottan fjórtán stiga sigur, 84-70.

„Núna er allt önnur staða komin upp og ef við stelum næsta leik er þetta orðin sería aftur. Maður finnur það að þegar á móti blæs hjá þessu liði verða þeir svolítið stressaðir,“ sagði Jón Arnór og er bjartsýnn fyrir fimmta leikinn annað kvöld.

Fréttablaðið

Mynd: www.virtusroma.it

Fréttir
- Auglýsing -