spot_img
HomeFréttirFyrsti sigur Hattar í hús

Fyrsti sigur Hattar í hús

 
Laugdælir og Höttur mættust í 1. deild karla á sunnudaginn seinasta þar sem Hattarmenn lönduðu sínum fyrsta sigri á tímabilinu, 85-79. Nýjasti leikmaður Hattar, Nicholas Kendrick Paul, sem hafði átt erfitt uppdráttar í undanförnum leikjum, átti draumaleik og stóran þátt, ásamt Daniel Terrell, í sigri Hattar.
Laugdælir virtust ekki geta hitt úr tveggja stiga skotum sínum og voru með betri nýtingu í þristum yfir leikinn, en þeir hittu úr jafn mörgum skotum fyrir innan og utan þriggja stiga línuna (14 skot hitt í tveggjum og 14 skot hitt í þristum). Höttur var aftur á móti með 61% tveggja stiga nýtingu (23/38) ásamt því að hitta betur úr vítaskotum.
 
Bæði lið byrjuðu sæmilega og var aldrei meiri munur en 5 stig á liðunum framan af. Í öðrum leikhluta var þó annað uppi á borðinu. Hattarmenn byrjuðu á því að skora 13 stig í röð á fyrstu 2 mínútum og 35 sekúndum leikhlutans. Eftir það klóruðu Laugdælir aðeins í bakkann en náðu þó ekki að minnka muninn mikið. Staðan í hálfleik því 29-41, Hetti í vil.
 
Heimamenn komu ákveðnir á svip úr búningsklefanum eftir hálfleikinn og ætluðu sér augljóslega ekkert annað en að jafna. Sama hvað heimamenn reyndu þó í þriðja leikhluta áttu aðkomumennirnir alltaf svör á reiðum höndum. Fyrir hverja körfu Laugdæla svöruðu Hattarmenn um hæl með þeirra eigin. Laugdælir hittu úr fleiri þristum en tveggja stiga skotum í leikhlutanum en Höttur hitti hins vegar mjög vel úr tveggja stiga skotum sínum og settu öll vítaskot sín (öll tekin af N.K. Paul). Hattarmenn héldu því 12 stiga forystu sinni við lok þriðja leikhluta.
 
Fjórði leikhlutinn byrjaði ekki vel hjá Laugdælum þar sem að liðsmenn Hattar skoruðu 6 stig í röð á fyrstu mínútunni áður en heimamenn fóru loksins í gang. Allt fór að ganga Laugdælum í hag og á næstu 5 mínútum skoruðu þeir 21 stig á móti 3 stigum Hattar. Jöfn staða; 69-69.
Erlendu leikmenn Hattar, þeir Daniel Terrell og N.K. Paul, skoruðu þá 7 stig í röð fyrir liðið sitt. Um það leyti hættu hlutirnir að ganga fyrir Laugdæli. Pétur Már, spilandi þjálfari þeirra, hitti úr þriggja stiga skoti og fékk í þokkabót tvö vítaskot sökum tæknivillu á Terrell. Pétur klikkaði á báðum vítaskotunum (og öllum 5 vítaskotum sínum í þessum leik) og í þokkabót klikkaði Jón Hrafn Baldvinsson úr galopnu lay-up tækifæri í sókninni þar á eftir. Eftir þetta virtust Laugdælir missa móðinn og Hattarmenn gengu á lagið. Þrátt fyrir góða baráttu og glæsta frammistöðu Sigurðar Orra Hafþórssonar á lokamínútunni (7 stig á seinustu 30 sekúndunum) gátu Laugdælir ekki náð Hetti. Lokastaðan var því 79-85, og fyrsti sigur Hattar staðreynd.
 
Með þessu tapi eru nýliðarnir frá Laugarvatni nú á botni deildarinnar og Höttur í því næst neðsta.
 
Laugdælir: Pétur Már Sigurðsson 18/4 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 16/5 fráköst/4 stoðsendingar/4 stolnir, Sigurður Orri Hafþórsson 15, Anton Kári Kárason 15, Bjarni Bjarnason 11/8 fráköst, Arnór Yngvi Hermundarson 4/5 fráköst.
 
Höttur: Daniel Terrell 31/5 fráköst, Nicholas Kendrick Paul 21/17 fráköst, Viðar Örn Hafsteinsson 15/8 fráköst, Kristinn Harðarson 7, Björgvin Karl Gunnarsson 5, Björn B. Benediktsson 2/6 fráköst, Þorleifur Viggó Skúlason 2, Hannibal Guðmundsson 2.
 
Dómarar leiksins voru þeir Eggert Þór Aðalsteinsson og Steinar Orri Sigurðsson.
 
Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson
 
Ljósmynd/ Úr safni: Viggó og lærisveinar í Hetti eru komnir með sín fyrstu stig í 1. deild karla.
Fréttir
- Auglýsing -