spot_img
HomeFréttirFyrsti heimasigur Blika

Fyrsti heimasigur Blika

 
Breiðablik vann sinn fyrsta heimasigur í Iceland Expressdeildinni í kvöld þegar liðið skellti Stólunum, 85-77, í spennandi og skemmtilegum leik. Þetta var annar sigur nýrra þjálfara Blika, Sæba og Guðna, í tveimur leikjum og óhætt að segja að þeir byrji með stæl. Stólarnir náðu ekki að fylgja eftir góðum sigri á Hömrunum á föstudaginn en voru óheppnir í leiknum því sigurinn gat lent báðum megin.
Gestirnir hófu leikinn vel og komust í 0-8. Nýi erlendi leikmaður þeirra, D. Visockis, skoraði fyrstu stigin og Svavar Birgisson tók vel undir með honum og setti tvo þrista í kjölfarið. Leikstjórnandi Blika, J. Schmidt, kom heimaliðinu á blað einnig með þrist og kom stöðunni í 3-8 en kappinn sá átti góðan leik í kvöld. Hinn nýja stigamaskína Stólana, C, Isom, var rólegur í byrjun leiksins en átti heldur betur eftir að láta til sín taka.
 
Blikar bitu í skjaldarrendur eftir góða byrjun Stólana og jöfnuðu í 10-10. Þeir grænklæddu héldu svo áfram góðri baráttu og unnu 1. leikhluta með fjórum stigum, 21-17.
 
Blikar héldu áfram á sömu braut í upphafi annars leikhluta og voru komnir með átta stiga forskot eftir eina og hálfa mínútu, 28-20. Isom lagaði stöðuna í 28-22 og var það fyrsta karfa hans utan að velli. Nú var kappinn í gang og gerði hann alls 12 stig á átta mínútna kafla í 2. leikhluta og var alls með 15 stig þegar gengið var til búningsherbergja í leikhléi. Stólarnir sumsé með forystu, 41-44, en allur síðari hálfleikur var eftir.
 
Sauðkrækingar héldu áfram að sverma að Blikum í upphafi 3. leikhluta og náðu sjö stiga forystu, 50-57. Þá vöknuðu Kópavogspiltar og náðu frábærum kafla. Bandaríkjamaðurinn Jeremy Caldwell fór mikinn í leiknum og varði nokkur skot með tilþrifum aukinheldur að sýna hvers hann er megnugur í sókninni. Blikar breyttu stöðunni úr 50-57 í 67-60 og höfðu því þægilegt – en þó naumt – forskot áður en fjórði leikhluti hófst.
 
Stólarnir hófu 4. leikhluta í svæðisvörn og bar hún góða raun. Þeir minnkuðu muninn í 67-65 og hleyptu mikilli spennu í leikinn sem hélst allt til leiksloka. Blikar náðu að halda einbeitingunni og unnu sætan átta stiga sigur, 85-77 og sinn fyrsta heimasigur á tímabilinu!
 
Eftir leikinn er fallbaráttan að verða ansi athyglisverð. Blikar eru í 10. sæti með átta stig en Tindastóll situr í 9. Sæti með 10 stig. Auk þessara liða eru Hamar, ÍR og Fjölnir í baráttunni en FSu er á botninum sem fyrr með 2 stig.
 
Jonathan Schmidt var atkvæðamestur í sigurliði Blika í kvöld með 25 stig, 8 stoðsendingar og 11 fiskaðar villur. Hjá Tindastól var Cedric „Awesome“ Isom með 32 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst en aðeins byrjunarliðsmenn Tindastóls skoruðu í leiknum. Ekkert stig kom af bekknum sem er áhyggjuefni fyrir Stólana.
 
 
Texti: Gylfi F. Gröndal
Fréttir
- Auglýsing -