Úrslitaeinvígi 2. deildar hófst í gærkvöldi í Fylkishöllinni þegar Fylkir tóku á móti Aþenu/Leikni. Leikir liðanna í deildarkeppninni voru báðir jafnir leikir þar sem Fylkir hafði betur og mátti alveg búast við jöfnum leik.
Fylkismenn byrjuðu betur, Þórarinn Gunnar Óskarsson var allt í öllu hjá Fylkismönnum en hann skoraði 11 af fyrstu 15 stigum Fylkis í leiknum. Heimamenn komust í 17-8 og þá tóku gestirnir leikhlé. Leiknir/Aþena gáfust hinsvegar ekki upp og voru fljótir að jafna leikinn í stöðunni 23-23. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 27-24 fyrir Fylki.
Þórarinn hélt áfram uppteknum hætti en hann var kominn með 18 stig eftir 12 mínútur og búinn að fiska þrjár villur á Dzemal Licina sem fór í kjölfarið útaf vegna villuvandræða. Gestirnir héldu áfram uppteknum hætti hinsvegar og voru duglegir að koma boltanum inn í teig og nýta sinn líkamlega styrk í öðrum leikhluta.
Mikill hiti var í seinasta leik liðanna í deildinni og þar var dæmdar nokkrar tæknivillur og óíþróttamannslegar villur. Fyrsta óíþróttamannslega villan í þessum leik kom eftir 16 mínútur þegar Jason Helgi Ragnarsson kemst inn í sendingu og Ingvi Rafn Ingvarsson brýtur á honum í hraðaupphlaupi. Tveimur mínútum seinna fékk Vésteinn Sveinsson aðra óíþróttamannslegu gestanna fyrir brot á Óðni Þórðarsyni. Þarna var kominn hiti í leikinn eins og var búist var við fyrir leik en leikmenn Aþenu/Leiknis voru sérstaklega ósáttir.
Bræðurnir Símon Tómasson og Finnur Tómasson settu sitt hvort þriggja stiga skotið fyrir hálfleikinn sem kom Fylki 7 stigum yfir og staðan í hálfleik var 52-45 fyrir Fylki. Gestirnir fengu sína fyrstu tæknivillu í leiknum eftir að annar leikhluti kláraðist þegar Elvar Ingi Hjartarson hrinti Símon Tómasson sem var á leiðinni á varamannabekkinn.
Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn betur en Dzemal Licina skoraði úr tveimur sniðskotum á fyrstu mínútunni. Guðjón Ari Logason fékk síðan aðra tæknivillu gestanna fyrir mótmæli. Aþenu/Leiknismenn létu það hinsvegar ekki stoppa sig og náðu að minnka muninn í tvö stig 57-55 sem fékk Fylki til að taka leikhlé. Fylkir skoruðu þá 8 stig í röð og náðu að byggja upp smá forystu. Gestirnir gáfust hinsvegar ekki upp og náðu að minnka forystuna í eitt stig í þriðja leikhluta.
Ellert Þór Hermundarson byrjaði fjórða leikhlutann af krafti og setti niður tvö þriggja stiga skot. Vésteinn Sveinsson svaraði fyrir gestina með 5 stigum í röð og hélt þessu jöfnu. Þórarinn Gunnar Óskarsson kom síðan inná eftir að hafa hvílt sig vegna villu vandræða og skoraði strax 5 stig í röð sem fékk gestina til að taka leikhlé í stöðunni 84-75.
Ingvi Rafn Ingvarsson skoraði 5 stig í röð en liðin skiptust annars á körfum í þessum spennandi fjórða leikhluta. Með rúmlega mínútu eftir setti Þórarinn Gunnar Óskarsson niður alley-oop troðslu eftir sendingu frá Finn Tómassyni sem kom Fylki í 8 stiga forystu. Einar Bjarni Einarsson var hinsvegar ekki hættur og skoraði 6 stig í röð fyrir gestina og minnkaði muninn í 2 stig með 50 sekúndum eftir. Á lokamínútunni brutu gestirnir tvisvar á Finn Tómassyni sem setti öll fjögur vítaskotin niður og kláraði leikinn, lokatölur 96-90 fyrir Fylki.
Atkvæðamestir í liði Fylkis voru Þórarinn Gunnar Óskarsson með 29 stig, 14 fráköst, 3 stolna bolta, 4 varin skot og 2 stoðsendingar og Jason Helgi Ragnarsson með 15 stig.
Hjá gestunum voru það Ingvi Rafn Ingvarsson með 14 stig, 8 stoðsendingar og 12 fráköst og Dzemal Licina með 12 stig og 10 fráköst.
Næsti leikur liðanna er Fimmtudaginn 10. apríl klukkan 19:30 í Unbroken höllinni.