Á morgun leggja systkinin Tómas Heiðar Tómasson og Bergþóra Tómasdóttir af stað til Bandaríkjanna. Tómas er á leið í háskólanám þar sem hann mun spila með Newberry skólanum í 2. deild bandaríska háskólaboltans og ekki langt undan í Wilmington í Norður-Karólínu mun Bergþóra ganga í miðskóla, þann sama og Rannveig Ólafsdóttir lék með á síðasta tímabili.
Um miðjan maí á þessu ári kom það upp úr krafsinu að Ægir Þór Steinarsson og Tómas Heiðar myndu báðir ganga til liðs við Newberry skólann en þeir félagar eru vafalítið eitt efnilegasta bakvarðapar þjóðarinnar og hafa getið sér gott orð hér heima sem og með yngri landsliðum Íslands.
Bergþóra var á síðustu leiktíð valin besti ungi leikmaðurinn í Iceland Express deild kvenna og ljóst að körfuknattleiksdeild Fjölnis hefur orðið fyrir gríðarlegri blóðtöku þetta sumarið en deildin getur þó klappað sjálfri sér duglega á bakið við framleiðsluna á þessum öflugu leikmönnum.
Eins og áður segir verður Tómas ásamt Ægi æskufélaga sínum í Newberry í Suður-Karólínu en skólaliðið gengur undir nafninu Newberry Wolves. Bergþóra verður í Norður-Karólínu og leikur með Cape Fear Academy Hurricanes og því ekki loku fyrir það skotið að systkinin komist að sjá leik hvert hjá öðru í vetur.
Karfan TV ræddi í dag stuttlega við systkinin Tómas og Bergþóru en bæði voru þau spennt fyrir Bandaríkjaför sinni.
Mynd/ [email protected] – Það fækkar á Holton-heimilinu í Grafarvogi nú þegar Bergþóra og Tómas halda til Bandaríkjanna.