spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2021Frank: Finnst ég bara ógeðslega heppinn

Frank: Finnst ég bara ógeðslega heppinn

Íslenski landsliðshópurinn er kominn saman til að undirbúa sig fyrir forkeppni að undankeppni EM. Í hópnum eru mörg kunnugleg andlit en einn nýliði í hópnum er Frank Aron Booker Jr., sonur Frank Bookers. Frank hefur búið bæði á Íslandi hjá móður sinni og í Bandaríkjunum hjá föður sínum og talar bæði málin reiprennandi. Hann var spenntur fyrir komandi landsliðsverkefni þegar Karfan gaf sig á tal við hann á æfingu í gær.

“Mér finnst ég bara ógeðslega heppinn. Það er loksins kominn tími til að spila fyrir landið mitt,” segir hann en honum hafði boðist að vera í æfingahóp landsliðsins fyrir EM 2015. Hann komst því miður ekki þá vegna skuldbindinga við háskólaliðið sitt í Oklahoma. 

“Ég er búinn að bíða í mörg ár eftir að komast hingað.”

Frank hefur lengi haft hug á að spila með landsliðinu og taka þátt í þessum geggjaða hóp, að hans eigin sögn. “Ég er búinn að bíða í mörg ár eftir að komast hingað og loksins er ég kominn og hlakka til að spila með þeim,” sagði hann rétt áður en að æfingin hófst.

Á síðasta tímabili spilaði Frank með liði ALM Évreux á Frakklandi í Pro-B en hann er ekkert að velta því fyrir sér nú þegar hann er mættur með landsliðinu. Hann segist vilja vera í núinu og einbeita sér að því að komast inn í hópinn og endurtekur hvað honum finnst hann heppinn að vera hérna.

“Ég elska að spila með þeim,” segir hann um landsliðshópinn. “Við erum núna að byrja koma saman og ég er bara að reyna að finna mig í hópnum,” segir Frank og slær á allar pælingar um framtíð liðsins eða framtíð sína með liðinu í bili. “Ég hugsa ekki um framtíð liðsins einmitt núna, ég vil bara einbeita mér að því að vera 100% og reyna keppa með þessum gaurum.”

Íslenska landsliðið mun sækja portúgalska landsliðið heim þann 7. ágúst og svo keppa sitthvorn leikinn hérna heima við Sviss og Portúgal 10. og 17. ágúst. Landsliðið mun síðan halda út til Sviss og freista þess að stela útisigri þann 21. ágúst.

Fréttir
- Auglýsing -